Systurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur eru listamenn sem starfa saman á vinnustofu sinni að Korpúlfsstöðum. Þar vinna þar saman að list sinni. Báðar eru þær menntaðar úr málaradeild MHÍ en vinnureglan þeirra er sú að það er stranglega bannað að mála nema þær séu báðar á staðnum. Samvinna þeirra er einstök.  Við fengum að skyggnast inn í líf þeirra.

Hverjar eru Sara og Svanhildur listamenn?

Við erum systur, fæddar og uppaldar á Ísafirði en fluttumst til Reykjavíkur í kringum tvítugsaldurinn (ekki samtímis þó, þar sem á okkur er 8 ára aldursmunur) og enduðum báðar í námi í Myndlistar og Handíðaskóla Íslands og höfum svo búið og starfað í höfuðborginni allar götur síðan, fyrir utan nokkur ár í Osló í Noregi.

Hvernig mynduð þið lýsa verkum ykkar?

Litrík, fígúratív sögugerð. Oftast er í myndunum ein saga sem kvíslast út í margar hliðarsögur. Með penslunum skoðum við saman lífið og tilveruna, persónulega reynslu og um leið sammannlega. Þetta eru að megninu til sjálfsmyndir þar sem við stillum okkur upp með fólki, dýrum og atburðum frá hinum ýmsu tímabilum.

Hvert sækið þið innblástur í verk ykkar?

Innblásturinn sækjum við oft í listasöguna, dægurmenninguna, heimspekina, hversdagslífið og ævintýrin svo eitthvað sé nefnt.

Hvernig kom það til að þið fóruð að mála saman?

Við uppgötvuðum hvað væri gaman að mála saman í ágúst árið 2010, þegar önnur okkar tók að sér verkefni á viðburði á Menningarnótt og bað hina að aðstoða sig við það.

Hafið þið lent í vandræðalegu augnabliki?

Líf okkar er eitt samfellt vandræðalegt augnablik ef út í það er farið.

Hvernig mynduð þið lýsa dæmigerðum degi hjá ykkur á vinnustofunni?

Við málum saman þrjá eftirmiðdaga í viku og meira ef sýning stendur fyrir dyrum. Við köstum á milli okkar hugmyndum í símtölum eða netsamtölum þar fyrir utan. Í sannleika sagt eigum við ekkert alltof gott skap saman svona dags daglega en það er svo furðulegt að á vinnustofunni virðist vera einhver friðhelgi sem umlykur okkur og vinnuna okkar. Þar fellur allt í ljúfa löð.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin ykkar?

Við erum með heimasíðu, þar sem sjá má verk okkar; www.duosisters.com einnig erum við með síðu á facebook.

Á Korpúlfsstöðum (þar sem við erum með vinnustofu) er opið hús fjórum sinnum á ári.

Næsta opna hús nálgast óðfluga, verður laugardaginn 5. maí n.k.

Við höfum einnig látið prenta kort eftir nokkrum verka okkar og tvö plaköt. Prentið er m.a. til sölu í Skúmaskoti á Skólavörðustíg 21A, í Listasafni Íslands og á vinnustofunni okkar á Korpúlfsstöðum, annars er hægt að hringja í okkur.

Fyrri greinStór ákvörðun að flytja til New York með fjölskylduna
Næsta greinLitríkur og fígúratífur Samúel