Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Sigurjón Arnarson en er alltaf kallaður Sissi og ég er lærður ljósmyndari. Ég lærði ljósmyndun í Iðnskólanum í Reykjavík og útskrifaðist með sveinspróf í ljósmyndun árið 2007. Eftir það starfaði ég við auglýsingaljósmyndun í 14 ár. Fyrir tveimur árum ákvað ég hins vegar að breyta til, sagði upp öllum viðskiptavinum mínum og fór að starfa sem flugþjónn hjá WOWair.

Sú ákvörðun að hætta að starfa sem atvinnuljósmyndari opnaði á nýja möguleika og tækifæri fyrir mig til þess að taka myndir fyrir sjálfan mig af fullum krafti og til að gera eingöngu það sem mig langaði eftir öll þessi ár að taka myndir fyrir aðra.

Það frelsi sem ég fann fyrir þegar ég sneri mér að eigin hugmyndum leiddi mig meira inn á listrænu brautina í faginu.

Sissi Sigurjon Arnarson

Getur þú lýst verkum þínum?

Allt frá því ég byrjaði í ljósmyndun hef ég verið duglegur við að vinna með myndvinnsluforrit samhliða ljósmynduninni.

Þegar ég byrjaði að leita í annað og aðeins út fyrir kassann, áttaði ég mig á því sem ég var að gera hentaði hentaði alls ekki hefðbundnum ljósmyndum og því fór ég að fikta með myndir í þessum stíl.

Litir, tónar og tilfinning er eitthvað sem hefur alltaf dregið mig að ljósmyndun og myndvinnslu og ætli það sé ekki bara heilmikið af því í þessum myndum. Þá þykist ég sjá ákveðinn ævintýraheim í myndunum mínum en einnig ákveðnar tilfinningar og smávegis sársauki líka. Myndirnar endurspegla allt þetta á ákveðinn hátt sem gerir þær hvort tveggja listrænar og kannski dálítið dularfullar.

Sissi Sigurjon Arnarson

Hvert sækir þú innblástur?

Ég er bæði undir áhrifum frá öðrum ljósmyndurum og listmálurum.  Uppáhalds ljósmyndararnir mínir eru til dæmis David Lachapelle, Erwin Olaf og Erik Almas. Þegar kemur að listmálurum er ég alveg dolfallinn yfir því sem Mark Ryden er að gera en auk þess skoða ég reglulega gömlu meistarana.

Sissi Sigurjon Arnarson

Hvernig kom það til að þú fórst að læra ljósmyndun?

Það var í rauninni fyrir algjöra tilviljun að ég hóf ljósmyndanámið. Ég var að vinna sem vefstjóri og í tengslum við það vann ég náið með markaðskrifstofu. Í einu verkefninu vantaði ljósmyndir í auglýsingabækling en það var enginn ljósmyndari á lausu fyrir lokaskilin. Ég ákvað að sjá hvort ég gæti ekki bjargað málunum. Þetta gekk svo glimrandi vel að ég var beðinn oftar og oftar um að taka ljósmyndir fyrir hitt og þetta.

Áður en ég vissi af var ég kominn á fullt í auglýsingaljósmyndun og þá varð ekki aftur snúið. Ljósmyndun hefur átt hug minn allan síðan þá.

Sissi Sigurjon Arnarson

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Það sem ég er að gera í dag er í raun myndverk. Þá er ég að vinna með margar ljósmyndir sem ég hef tekið hér og þar og er svo búinn að búta þær upp og setja saman aftur. Þær verða þannig að lokum sem ein mynd eða myndverk. Ég notast við tölvuforritið Photoshop og teikniborð til þess að vinna myndirnar. Oft eru þetta risastórar skrár með yfir 200 mismunandi lögum (layers) í myndvinnsluforritinu.

Sissi Sigurjon Arnarson

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?

Þegar ég klára eitt verk byrja ég strax á því næsta og ég er alltaf mest spenntur fyrir því sem ég er að gera hverju sinni.

Sissi Sigurjon Arnarson

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

Mig langar að klára slatta af myndum í viðbót og halda svo sýningu. Draumurinn væri að vera með stór prent í flottu gallerýi td. í New York eða San Francisco. Á maður annars ekki að dreyma stórt? En svona grínlaust þá væri gaman að geta haldið sýningu á Íslandi því myndirnar eru gerðar fyrir stórt prent og það væri frábært að fá að sjá þær í flottu umhverfi.

Sissi Sigurjon Arnarson

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?

Hann er langt frá því að vera dæmigerður. Ég er með skrifstofu og stúdíó hjá Hive Studeos á Skemmuvegi í Kópavogi þar sem nokkrir ljósmyndarar, markaðsfólk og grafískir hönnuðir eru saman með vinnuaðstöðu. Síðan er ég einnig með vinnuaðstöðu heima. Þegar ég er að taka myndir er ég ýmist í stúdíóinu eða úti við en myndvinnslan sjálf fer fram á öllum tímum sólahringsins, oft í kósífötunum heima eftir flug því ég reyni að nýta tímann þegar ég er ekki að fljúga eða erlendis til þess að vinna. Þeir sem þekkja flugið vita að maður er víst vakandi á hinum og þessum tímum sólahringsins eftir því hvar maður hefur verið að þvælast.

Sissi Sigurjon Arnarson

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Verkin mín eru ekki komin í sölu en það er hægt að skoða þau á vefsíðunni minni www.sissi.is. Ég er einnig mjög virkur á Instagram og er duglegur að setja í sögu þar hvernig ferlið er við að vinna myndirnar. Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða það má benda á slóðina www.instagram.com/lordsissi og ég hvet alla til þess að fylgja mér þar. Eins er ég með facebook-síðu og ég reyni að setja allt þar inn líka á https://www.facebook.com/www.sissi.is/

Fyrri greinBergrún Íris vildi kenna sonum sínum að fylgja hjartanu
Næsta greinHversdagslegir munir verða að listaverkum hjá Margréti