Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir
Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Hver er listamaðurinn?

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir fæddist á Siglufirði 23.júní 1963 og bjó þar til 1986, þá fluttist hún til Akureyrar. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1989-93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að vera athafnasamur myndlistamaður.

Aðalheiður starfrækti Kompuna, gallerí á Akureyri í 8 ár, tók virkan þátt í uppbyggingu „Listagilsins“ á Akureyri og er einn af stofnenda Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Árið 2000 var hún útnefnd Bæjarlistamaður Akureyrar og sama ár hóf hún þátttöku í Dieter Roth akademíunni sem eru fjölþjóðleg samtök listamanna. Aðalheiður hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun ríkisins. Hlaut menningarverðlaun DV árið 2015 í flokki myndlistar og var tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2017 fyrir starfið í Alþýðuhúsinu.

Í desember 2011 keypti Aðalheiður Alþýðuhúsið á Siglufirði og hefur komið upp vinnustofu þar. Einnig stendur hún fyrir mánaðarlegum menningarviðburðum og hefur endurvakið Kompuna í litlu rými í miðju hússins.

Vinnustofa og heimili Aðalheiðar er í Freyjulundi, 601 Akureyri og í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Sími:  865-5091. adalheidur@freyjulundur.is www.freyjulundur.is

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir
Aðalheiður setur einnig upp stórar sviðsmyndir þar sem áhorfandinn getur orðið hluti af verkinu.

Getur þú lýst verkum þínum?

Verkin mín fjalla alla jafna um mannleg samskipti í daglegu lífi og þá virðingu sem við gætum sýnt hvert öðru jafnt sem dýrum og náttúru.  Ég set upp nokkurskonar svipmyndir þar sem áhorfandinn getur oftar en ekki gengið inní myndheiminn og jafnvel tekið þátt í því sem þar er að gerast. Nú í seinni tíð eru þetta oftast stórar innsetningar þar sem t.d. heilu húsi er komið fyrir í sýningarsalnum.

Í fimm ár fjallaði ég um íslensku sauðkindina og þá menningu sem frá henni hlýst og setti upp fimmtíu sýningar þess efnis. En nú síðastliðin fimm ár hefur hugur minn leitað meira innávið með sjálfa mig sem útgangspunkt, en um leið hefur landið og náttúran sótt fast að.

Um þessar mundir er ég með sýningu á Listasafninu á Akureyri sem ber yfirskriftina Hugleiðing um orku og fjallar um, náttúru, notagildi, virðingu og samlyndi.

„Næring líkama og sálar, og tilvist í sátt við náttúruna og samfélagið, eru manneskjunni lífsnauðsynlegir þættir. Ekki aðeins til að lifa af heldur einnig til að gefa lífinu tilgang: að upplifa, elska, gagnrýna og meðtaka. Oft fær listin fólk til að staldra við og hugsa nýja hugsun og er því tilvalinn vettvangur tilraunastarfsemi. Þar eru engin fyrirfram mótuð svör, reglur eða mælikvarði. Frelsi til sköpunar er algjört og skilningur einstaklingsbundinn.”

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Hvert sækir þú innblástur?

Lífið sjálft er innblástur og ekki hjá því komist að láta sig það varða. Ég kýs að leitast eftir fegurð og jákvæðri upplifun og hvernig við ættum að geta lifað í sátt og samlyndi. Eitt augnablik í samskiptum fólks getur orðið mér uppspretta sköpunar í mörg ár sem og samskipti við dýr og náttúru.

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Hvernig kom það til að timbur var fyrir valinu sem viðfangsefni?

Eftir að ég útskrifaðist úr listnámi með hefðbundið málverk sem aðalsmerki fór ég að kanna ýmsar leiðir til listsköpunar. Í takti við annað í lífi mínu hóf ég að endurvinna ýmist dót sem varð á vegi mínum. Ég var tíður gestur á gámasvæðinu á Akureyri á árunum 1993 til 1999 og náði í hráefni þar sem aðrir höfðu hent frá sér. Þetta var sem fjársjóðsleit í mínum huga með yfirfullum gámum af gulli. Þá sá ég hversu miklu timbri er hent á hverjum degi og ég fann mig knúna til að vinna úr því. En ég hef alla tíð unnið með ýmsa miðla og blandað þeim saman í innsetningar, videóverk, lágmyndir, gjörninga, málverk og skúlptúra.

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir
Ljósmynd: Arnar Ómarsson

Hvernig er vinnuferli við eitt verk?

Ég er yfirleitt að vinna með ákveðnar hugmyndir, og nota þá tækni sem hentar í það skiptið. En það kemur fyrir að dótið eða timbrið talar til mín og hugmyndir fæðast út frá efninu. Timburskúlptúrarnir eru lang flestir unnir inn í ákveðið þema, svo ég veit fyrirfram hverslags manneskju eða dýr ég ætla að gera.

En oft eru það kubbarnir sem ráða stellingum eða formi á verkunum. Í stað þess að vinna eins og hefðbundinn myndhöggvari, hleð ég timbrinu upp eins og um leir væri að ræða. Beinagrindin fyrst svo hold og að lokum föt. Stundum gerast verkin eins og að sjálfu sér og allt í einu er sprottin fram manneskja með sína margbrotnu sögu, en stundum tekur það marga mánuði að ná fram lífi. En ég nota timbrið líka til að vinna umgjörð, hús, tæki, mat og hljóðfæri svo eitthvað sé nefnt. Nú síðast 6 x 5 x 3 metra skúlptúr sem inniheldur mannsmyndir, videóverk, málverk og lágmyndir.

 

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Aðalheiður Sigríður EysteinsdóttirAðalheiður Sigríður EysteinsdóttirAðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

Fyrir mér er það ferlið að gera verk sem skilur eftir sig tilfinningar, en þegar verkið er tilbúið tilheyrir það sjálfu sér og losnar einhvernveginn frá mér. Svo að það eru alltaf nýjustu verkin sem eru í uppáhaldi hjá mér. Þó verð ég að segja að það er mjög gaman að hitta gömul verk eða rekast á þau heima hjá eigendunum. En ef ég ætti að taka eitt verk frá mundi það vera Blái flygillinn, vegna þess hversu gaman var að vinna hann.

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Ég fer yfirleitt á fætur um kl. 8.30 og sit við tölvuna til kl. 10.00 Þá hef ég vinnu við verkin þar til ég tek mér hádegis matarhlé.  Ég rek gallerí sem er opið alla daga kl. 14.00 – 17.00 og er því tilbúin að taka á móti gestum samhliða listsköpun á þeim tíma dags. Síðan koma foreldrar mínir í heimsókn kl. 17.00 og við tökum púlsinn á lífinu. Ég vinn að stærri verkum fram að kvöldmat og sest svo við minni verk á kvöldin til miðnættis.

Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir
Aðalheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Minni verk eftir mig er hægt að nálgast í safnabúðinni á Listasafni Íslands, annars er bara að hafa samband við mig með tölvupósti, í síma eða á facebook.

Vinnustofa og heimili Aðalheiðar er í Freyjulundi, 601 Akureyri og í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Sími:  865-5091
adalheidur@freyjulundur.is
www.freyjulundur.is   

Ljosmyndir: Arnar Ómarsson og Brák Jónsdóttir

Fyrri greinLíf mitt verður ein samfeld sigurganga
Næsta greinMyndlistin yfirtók lífið þegar Ingvar Þór hlýddi konunni