Unnur Ýrr Helgadóttir

Hver er listamaðurinn?

Unnur Ýrr Helgadóttir er fædd 1980, uppalin í Bandaríkjunum og starfar nú með annan fótinn á Íslandi og hinn í Svíþjóð. Hún er grafískur hönnuður, teiknari og listmálari. Unnur lauk B.A. námi frá Listaháskóla Íslands árið 2005, einnig hefur hún lokið víðtæku listnámi bæði frá listaskólum í Bandaríkjunum sem og hér heima.

Unnur sérhæfði sig í grafískri hönnun fyrir prent og skjámiðla og hefur starfað sem grafískur hönnuður á auglýsingastofum hér á landi og í Stokkhólmi. Fyrir nokkrum árum tók hún það skref að sinna ástríðu sinni fyrir málverkinu. Þessi tvö ólíku svið eiga það samt til að renna saman í verkum hennar, styðja hvort annað, takast á og veita gagnkvæman innblástur.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?

Ég hef alltaf átt mjög erfitt með að svara þessari spurningu sem maður fær auðvitað allt of oft. Ég á það til að taka bara upp símann þar sem tæknin er eins og hún er í dag og sýna viðkomandi nokkrar myndir í staðin fyrir að þurfa að koma með lýsingu. En um er að ræða akrílverk.

Fyrst og fremst er ég að segja sögu í verkunum mínum.

Að lesa og skrifa hafa verið ástríður í lífi mínu og hefur sá áhugi færst yfir í myndmál. Það sem virðist vera bara „falleg mynd“ við fyrstu sýn reynist oftast hafa mun dýpri og jafnvel dekkri meiningu undir yfirborðinu þegar vel er gáð. Oft vitna ég í þetta með titli verksins. Dökkur húmor og táknrænir útúrsnúningar eru því hluti af stílnum ef svo má segja.

Oft kannast fólk við mig sem listamanninn sem setti kindina í lopapeysuna.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Hvað var það sem fékk þig til þess að byrja að stunda myndlist?

Sem barn var ég síteiknandi og föndrandi og fyllti hverja litabók og skissubók á eftir annari. Sem unglingur fór ég að prufa mig áfram með annars konar efni t.d. leirlist og glerlist, en mér leið alltaf best með penna og blað fyrir framan mig. Þar fann ég mína ró. Ég leit nú samt á þetta sem „hobby“ og bara leið til að slaka á lengi vel. Ég byrjaði í læknisfræði á sínum tíma sem ég hafði mjög gaman af, en í því ferli þar sem gafst ekki mikill tími í að sinna sköpunarþörfinni fann ég að mér var ætlað annað og stemmdi beint í listnám. Þannig byrjaði boltinn að rúlla.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Hvernig hefur þinn stíll orðið til og þróast í gegnum tíðina?

Ég er sjálf í stanslausri þróun (vona ég) og því þróast stílinn samkvæmt því. Einnig hefur staðsetning og bara almennir tískustraumar örugglega áhrif á litaval og annað þótt ég sé ekki alltaf meðvituð um það. Eitt veit ég að þegar ég byrjaði að mála í svarthvítu þá smámsaman bættust litirnir við hverja sýningu sem ég hélt. Kannski með meiri þroska og sjálfstrausti fengu litirnir að tala meira.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Hvert sækir þú innblástur?

Íslenska náttúran hefur sterk áhrif á verkin mín eins og hjá svo mörgum íslenskum listamönnum. Orkan og ljósið er svo einstakt hérna. Einnig hef ég mikinn áhuga á samspili og flæði lita. Íslensk menningarsaga á það til að blandast inní myndefnið. En fyrst og fremst er ég að segja frá einhverju persónulegu sem ég er að ganga í gegnum eða eitthvað sem viðkemur mínu lífi á einhvern hátt.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Er eitthvað efni vinsælla en annað hjá þér sem þú hefur verið að vinna með?

Akrílmálning og vatn. Þar fann ég mína leið. Ég hef aldrei fundið mig í að mála með olíu þótt ég hef prufað það. Ég byrjaði að sulla með vatnsliti mjög ung og í dag vinn ég oftast með akrílmálningu og mikið vatn.

Smáatriðin skifta miklu máli og vinn ég því svörtu línurnar í verkunum mínum með minnsta bursta sem hægt er óháð stærð á striga.

Allt er málað og stytti ég mér aldrei sporin með því að nota penna í þynnstu línurnar. Ég veit ekki afhverju en mér finnst það skipta máli. Og þótt ég mála í mismunandi stærðum þá veit ég ekki um betri tilfinningu en að standa frammi fyrir STÓRUM hvítum tómum strekktum striga áður en ég byrja að mála. Varla tími ég að byrja! Það er eintómt frelsi.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Er eitthvað verk í meira uppáhaldi hjá þér en annað?

Nei ég get nú ekki sagt það. Að mála er mjög persónulegt ferli þannig að á einn eða annan hátt skiptir hvert og eitt verk máli. Mér fannst til dæmis mjög erfitt skref að fara frá því að selja verkin mín sjálf og vita hvar verkin enduðu í það að selja í gegnum gallerí og þurfa því fyrr að „sleppa taki.“ Maður gefur eitthvað af sér í hverju verki.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum vinnudegi hjá þér?

Ég mundi nú ekki segja að ég eigi hefðbundin vinnudag, sérstaklega núna þegar ég á orðið tvo litla gríslinga til að sinna. Ég á það til að vinna í skorpum. Mestur tími fer í þróunarferlið og ég berst oft við þá tilfinningu að mér finnist ég ekki „vera að gera neitt“ þá daga sem ég sit og hugsa og mála ekki neitt. En ég veit af reynslunni að þetta eru oft mikilvægustu dagarnir og jafnvel vikurnar.

Oft koma bestu hugmyndirnar þegar ég er að gera eitthvað allt annað eins og að skúra gólf eða í löngum göngutúrum þar sem maður „þarf ekki að hugsa“.

Í því tómi fá hugmyndirnar að fæðast. Því mundi ég segja að mínir vinnudagar eru oftast ekki fyrir framan trönurnar með pensil í hendi. En svo kemur auðvitað að því að það þarf að framkvæma og þá tekur við törn þar sem ég sef lítið sem ekkert og borða lítið og í því flæði sem myndast undir pressu (sem ég oft skapa mér sjálf) tekst mér að leggja til hliðar fullkomnunaráráttuna og hunsa alla filtera og bara vera til staðar í augnablikinu við hreina sköpun.

Unnur Ýrr Helgadóttir

Unnur Ýrr Helgadóttir Unnur Ýrr Helgadóttir

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Langflest málverkin mín eru til sölu hjá Gallerí Fold, en flestar eftirprentanir sel ég sjálf. Það er alltaf hægt að hafa samband við mig í e-mail unnurart@gmail.com ef einhver hefur spurningar varðandi verk eða prent.

Ég er mest virk á instagram þessa dagana sem unnurart, en einnig er hægt að finna mig á facebook og á síðunni minni www.unnurart.is (sem þarf reyndar mikið að uppfæra þar sem ég hef verið í tveim barnseignarfríum trekk í trekk).

Fyrri greinStaða kvenna birtist í verkum Önnu
Næsta greinAndstæður mynsturs og birtu eru heillandi