Þórdís Elín Jóelsdóttir
Þórdís við myndina „Maður á að hafa vit á því að vera í góðu skapi – eða hvað?“.

Hver er listamaðurinn?

Þórdís Elín Jóelsdóttir, fædd og uppalin í Reykjavík.

Ég elskaði að teikna og var párandi á allan pappír sem ég komst í tæri við sem barn.

Ætlaði í listnám eftir að ég útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands en það dróst. Fór á hin ýmsu námskeið meðan börnin voru að vaxa úr grasi uns ég fór í kvöldskóla, Fjölbrautarskóla Breiðholts á listasvið 1982 og var þar í 3 vetur. Þá hvatti einn kennarinn minn mig til að sækja um í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, valdi fyrir mig verk og ég sótti um.

Útskrifaðist úr grafíkdeild MHÍ 1988.

Getur þú lýst verkum þínum?

Í byrjun vann ég með konuna, hina sterku brjóstgóðu konu með háan háls svo hún náði upp úr öllum vandamálum. Það var mín hugsun. Svo breyttist hún yfir í náttúruna, þær sameinuðust. Nú hin síðari ár hef ég einbeitt mér að samspili manns og náttúru.

Þórdís Elín Jóelsdóttir

Hvert sækir þú innblástur?

Íslensk náttúra gefur mér innblástur. Sérstaklega hafa fjöll áhrif á mig, auðn og víðátta.  Einnig veðrabrigði, þoka og alls kyns skýjafar, sem ég hef nýtt í vatnslitaþrykk.

Þórdís Elín Jóelsdóttir

Áttu þér uppáhalds verk?

Eiginlega ekki, mitt uppáhaldsverk er það sem ég vinn að í hvert sinn.

Ef ég ætti að nefna eitt verk gæti það verið vatnslitaþrykk sem ég gerði fyrir sýningu í Gallerí Úmbru 1995. Þegar maður vinnur vatnslitaþrykk verður maður að halda áfram að vinna án kaffi- eða matarhlés, þar sem vatnsliturinn er fljótur að þorna og þá koma skil.

Vatnslitaþrykk geri ég þannig að ég mála með vatnslit á glerplötu, er með úðabrúsa mér við hönd og svo úða ég yfir myndina á glerinu. Seiden-kokon pappírinn (þunnur, gegnsær en sterkur pappír), er lagður á myndina á glerinu og valsað yfir. Legg svo pappírinn til hliðar, geri þetta aftur og aftur þar til ég held að myndin sé tilbúin, þá læt ég pappírinn liggja á glerinu til morguns. Þá er oft erfitt að fara heim af vinnustofunni, Það er svo spennandi að sjá hvað vatnið hefur gert á meðan myndin er að þorna.

Daginn eftir ríf ég svo pappírinn upp af glerinu og þá er myndin báðum megin á pappírnum. Svona myndverk hafa verið sett á milli glerja og þau hleypa birtu í gegnum sig á daginn en eru svo massíf verk báðum megin á kvöldin.

Þórdís Elín Jóelsdóttir

Þórdís Elín JóelsdóttirÞórdís Elín JóelsdóttirÞórdís Elín Jóelsdóttir

Þórdís Elín Jóelsdóttir

Hvaða aðferð ert þú að nota?

Ég vinn aðallega í ætingu á koparplötur. Síðustu ár hef ég blandað ætingu og vatnslitaþrykki saman, þrykki koparætingarnar á vatnslitaþrykk sem er límt við grafíkpappír (Salland pappír 300gr) um leið og þrykkt er, aðferðin kallast chine collé.  Ekkert þrykk verður alveg eins í grunninn en koparplatan er alltaf eins.

Svo hef ég aðeins prófað ljósnæmar plötur, solarprint. Þá lætur maður dagsbirtuna um að æta myndefnið á plötuna, baðar hana í volgu vatni og þurrkar. Þrykkir með vatnsuppleysanlegum þrykklitum, engin eiturefni, allt vistvænt.

Þórdís Elín Jóelsdóttir

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum vinnudegi hjá þér?

Mæti gjarnan á hverjum virkum degi og byrja daginn á því að hella upp á kaffi. Svo fæ ég kannski í heimsókn kollega sem eru á Korpúlfsstöðum og við eigum gott spjall. Síðan fer maður að vinna, þrykkja, ramma inn eða æta nýjar plötur. Hver dagur gefur eitthvað nýtt.

Þórdís Elín Jóelsdóttir

Þórdís Elín JóelsdóttirÞórdís Elín Jóelsdóttir

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Verkin mín má sjá og versla í Gallerí Korpúlfsstöðum, sem er opið fjóra daga í viku, 4 tíma í senn, miðvikudag til föstudags frá 14-18 og laugardaga 12-16.  Við erum 12 í galleríinu og skiptumst á að vera á vakt.  Einnig er ég með verk í Gallerí List og Gallerí Fold auk þess sem ég er í Artóteki, Borgarbókasafni.

Svo má alltaf hafa samband við mig:  thordisej@islandia.is

Fyrri greinRíkharður Valtingojer listamaður og grafíker forðast áhrif frá öðrum listamönnum
Næsta greinMeð kyrrum huga fer sköpunin af stað