Núverandi vinnustofa Ólöfu í Toscana á Ítalíu.

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Ólöf Oddgeirsdóttir,er fædd og uppalin í austurbænum í Reykjavík en ég hef búið í Mosfellsbæ í áratugi. Ég lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1975. Seinna fór ég í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, lauk þaðan prófi frá málaradeild og lagði síðar stund á listfræði við Háskóla Íslands. Ég hef lengst af starfað við hjúkrun en jafnframt tekið virkan þátt í verkefnum og sýningarhaldi tengdu myndlist. Fram undir þetta hef ég búið og starfað að Álafossi í Mosfellsbæ haft þar vinnustofu og staðið fyrir myndlistarsýningum. Nú hefur líf mitt tekið allt aðra stefnu, ég er flutt frá Álafossi, hætt að starfa við hjúkrun og einbeiti mér nú að myndlistinni. Sem stendur bý ég í norður Toscana á  Ítalíu þar sem ég hef átt athvarf um árabil.

Við mæðgurnar erum að undirbúa myndlistarsýningu hér í bænum okkar Bagnone en hún verður opnuð þann 18. ágúst næstkomandi.

2015 Framvinda, Blýantsteikning á pappír 150 x 800 cm.

Getur þú lýst verkum þínum?

Ég hef unnið og sýnt olíumálverk, teikningar, þrívíð verk og innsetningar sem í upphafi byggðust á vefnaðar- og útsaumsmunstrum en  tóku síðar að blandast lífrænu mynstri náttúrunnar. Myndefnið er oftast sótt í skipulögð mynstur og til náttúrunnar. Verkin sem ég er að vinna núna og verða á næstu sýningu eru blýantsteikningar, annars vegar unnar undir áhrifum frá umhverfi mínu hér á Ítalíu og hins vegar áhrifum frá Íslandi. Verkunum okkar á sýningunni er ætlað að lýsa því hvernig umhverfið hefur haft áhrif á sköpunarþörfina.

2008 Toscanastemning. Blýantsteikning á pappír 70 x 100 cm.

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Framlag kvenna til myndlistar og handverks hefur ekki farið hátt en það hefur verið mér hugleikið. Ég hef unnið með vefnaðar- og útsaumsmynstur sem flest sækja fyrirmyndir til náttúrunnar en ég hef líka sótt áhrif beint til náttúrunnar og blandað saman í myndverkin.

Fjaran er ein af fjórum teikningum 100 x 70 cm, blýantsteikning á pappír, 2018.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Nútímamyndlist býður upp á fjölbreyttar aðferðir til tjáningar. Það ræðst oft af sýningarrýminu, umhverfi þess og viðfangsefninu hvaða aðferð verður fyrir valinu. Ég hef unnið olíumálverk, blýantsteikningar, þrívíð verk, myndbönd, ljósmyndir og innsetningar. Ég á verk á sýningunni The Factory sem nú stendur yfir í gömlu síldarverksmiðjunum í Djúpavík á Ströndum. Hluti þeirra eru þrívíð verk gerð úr pappír, þara og netum en önnur eru blýantsteikningar á pappír.

Sjávarfang, er unnið úr pappír, lími, þara og netum 2018.

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?

Líklega er það verkið Sófamálverkið sem við Anna Jóa unnum saman og sýndum í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur árið 2001, á sýningunni EAST í Norwich í Englandi árið 2002 og í Listasafni Árnesinga á sýningunni Nautn og notagildi árið 2012 en það verk er nú í eigu Listasafns Íslands. Verkið fjallar m.a. um menningarsamhengi málverkins og tengsl borgar og náttúru. Í framhaldi af því unnum við Anna Jóa annað verk sem heitir Mæramerking og fjallar um menningarlega sjálfsmynd og mikilvægi táknmynda Vestur -Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum og sýndum að Álafossi árið 2004 og í Gallerí Skugga árið 2005. Öll vinna við þessi verk var bæði áhugaverð og gefandi og skilur eftir góðar minningar.

2011 Blýantsteikning á pappír 100 x 70 cm.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?

Lífið er síbreytilegt og hefur tekið stefnu eftir þörfum hverju sinni. Í dag er ég að upplifa mikið frelsi og loks nægan tíma til að sinna myndlistinni. Nú er ég að teikna fyrir sýninguna sem er á næsta leiti. Þegar ég vinn dreg ég mig í hlé frá fólki og hlusta gjarnan á eitthvað fróðlegt og skemmtilegt á meðan ég teikna. Fyrir mér er teikningin slökun eða hugleiðsla og ég á með henni mínar bestu stundir. Ég undirbý verkin ekki mikið fyrirfram heldur læt þau ráða ferðinni og leiða mig áfram.

2016, blýantsteikning á pappír 40 x 120 cm.
2008 Feneyjastemning. Blýantsteikning á pappír 70 x 100 cm.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin?

Ég sýni verkin mín nokkuð reglulega ein eða með öðrum og þá er tækifæri til að nálgast þau en þar fyrir utan er fólki velkomið að hafa samband við mig ef það hefur áhuga á einhverju þeirra, senda mér línu í tölvupósti (olofodd@gmail.com) eða hringja (6986141).

Fyrri greinGuðný Hafsteinsdóttir sameinar list og nytjahluti
Næsta greinSnúið að vera listamaður á Ítalíu