Hver er listamaðurinn?
Bjarni Sigurðsson fæddist 1965 í Reykjavík. Aldamótaárið lauk hann fjögurra ára keramiknámi við Århus kunstadademi og strax sama ár setti Bjarni á laggirnar vinnustofuna Baghus Atelieret þar sem 10 listamenn sinntu list sinni, keramikerar jafnt sem listmálarar. Þar starfaði hann til ársins 2007 er hann flutti heim til Íslands og opnaði núverandi vinnustofu sína í Hafnarfirði.
Bjarni hefur haldið fjölda samsýninga og einkasýninga, bæði hér heima og í Danmörku. Hann hefur tvívegis tekið þátt í ritskoðuðum sýningum sem haldnar eru í Danmörku, Den Frie í Kaupmannahöfn og i Tistrup á Jótlandi. Í báðum tilvikum var hann í hópi þeirra fáu tuga listamanna sem valdir voru úr hópi um og yfir 1000 umsækjenda. Á Íslandi hefur Bjarni haldið nokkrar einkasýningar, Hringbrot í Hafnarborg, Kakklamyndir í Gallerí Fold og Vasaleikur hjá Listamönnum.
Bjarni er meðlimur í Leirlistafélagi Íslands og hjá SÍM, sambandi íslenskra listamanna. Einnig er hann meðlimur í Danske Kunsthåndværkere og Designere sem fyrir utan ýmsa möguleika varðandi samvinnu við erlenda aðila, gefur þátttökurétt á listamarkaðnum sem haldinn er ár hvert, Vor Frue Marked.
Verk Bjarna eru í eigum ýmissa aðila svo sem Hafnarborgar, Sendiráða í ýmsum löndum, Norrænu Ráðherranefndarinnar, Eimskips, Danske Bank, Arion Banka, Norgaard Skolen I Árósum og Bankarskolen í Horsens.
Verk Bjarna eru til sölu víðar en á Íslandi, og má þar nefna fyrst ABC Carpet and Home í New York í Bandaríkjunum. Einnig sér hann um framleiðslu á verkum fyrir veitingastað á þeirra snærum. Í Danmörku er Bjarni víða og má þar helst nefna Illums Bolighus í Kaupmannahöfn, Aarhus og Lyndby, Keramiksafni Danmerkur Clay, Louisiana safninu í Danmörku, Raasted í Ringkobing, og fleiri stöðum. Í Noregi er Bjarni að selja í galleríi í Tromsø og eru fleiri staðir væntanlegir þar í landi. Á Íslandi er hann að finna á Gallerí Stígur, Gallerí List og einnig er hann í tengslum við Gallerí Fold. Þess má geta að Bjarni er meðeigandi og rekstraraðili að Gallerí Stígur.
Maður lærir með því að leika sér
Bjarni vinnur mikið að gerð ýmissa glerunga og í dag starfar hann með fleiri hundruð glerunga, sem gefa fleiri fleiri þúsunda möguleika á ýmsum útkomum á þeim. Hann hefur leikið sér að gerð glerunga í rúm 15 ár og hefur öðlast mikla reynslu og þekkingu á hinum endalausu túlkunarmöguleikum sem glerungar gefa leirlistinni. Í þeim leik hefur hann brotið margar hefðbundnar verklagsreglur um glerungagerð og meðferð þeirra í viðleitni hans til að fá fram ákveðna áferð og litabrigði í glerungunum. Í námi hans var oft nefnt að ýmislegt væri ekki mögulegt við gerð glerungavinnslu en fyrir hann jók það einungis löngunina til að prófa og sannreyna hvernig hann gæti gert hugarverk sín möguleg. Maður lærir nefnilega í því að leika sér. Fyrir Bjarna er glerungagerð því leikur og engin ástæða að óttast útkomuna því hana er alltaf hægt að bæta og breyta þar til útkoman verður eins og leitast er eftir.
Til að glerungarnir njóti sín sem best vinnur Bjarni með hrein og einföld form. Leirinn er eins og einskonar léreft til að nota fyrir glerungana, rétt eins og listmálarar nota til að mála á. Þess má geta að Bjarni penslar alla glerunga sína á hvaða verk sem það kann að kallast. Bjarni vinnur allt í Unika verkum, hvort sem um er að ræða stór eða smá verk. Hver og einn hlutur er skráður með númeri sem sýnir hvað hvert verk hefur fengið af glerungum. Þetta þýðir að Bjarni er með öll sín verk skráð hjá sér sem hann hefur gert frá námi. Ekkert er unnið af handahófi, heldur skráð eftir kerfi og allt eftir því hvað hvert verk mun fá af glerungum. Við hverja brennslu er alltaf nýir glerungar með og eða nýjar samsetningar af glerungum. Einnig eru sum verka hans brennd mörgum sinnum.
Verk Bjarna eru stór og smá og af öllum gerðum, en allt einstakir hlutir þar sem hver og einn hlutur er einstakur, enda enginn eins.
Hvaðan kemur innblásturinn?
Frá náttúrunni, umhverfinu og fleiri stöðum. Líklegum og ólíklegustu stöðum. Það er þá bæði er varðar áferð og form. Form geta sprottið upp úr nánasta umhverfi, áferð er oftast frá náttúrunni. Formin geta sprottið frá öðrum formum, samansettum eða ekki, skorin í tvennt, sett saman á ný á annan máta og allt mögulegt. Áferðin er oftast úr náttúrunni, og þá er það mesta vinnan að koma því fram í glerungunum. Eftir margra ára vinnu með glerunga reynist það ekki eins erfitt og í byrjun, en þó alltaf erfitt í byrjun ef á að ná einhverju alveg sérstöku, því möguleikarnir eru hreint ótrúlegir þegar kemur að íslenskri náttúru.
Átt þú þér upphálds verk?
Ég myndi segja já við því. Ég held það séu verkin mín sem ég byrjaði að gera þegar ég var enn í námi, og síðan sýndi í Hafnarborg árið 2002, tveimur árum eftir að ég útskrifaðist. Verkin eru öll unnin út frá hringnum. Þau eru skorin til, hvort sem er til helminga eða aðeins meir. Vasarnir stóru eru alveg hringlóttir en minni vasar sem ég kalla eldfjöllin, eru skorin til helminga og stundum meira eða minna af þessu sama formi sem hringurinn er. Upphálds glerungurinn minn er rauði glerungurinn sem er eins og brennandi hraun. Ég hafði lengi vel reynt að ná fram þessum glerungi og áferð, og eftir margra ára tilraunir og vinnu tókst það.
Hvernig kom það til að þú fórst að vinna með keramik?
Ég starfaði hjá Búnaðarbaka Íslands frá árunum 1990 – 1996. Árið 1994 fór ég á kvöldnámskeið hjá Myndlistaskóla Reykjavikur í nokkurs konar alhliða námsskeið, þar sem við fórum í teikningu og formgjörð og leir.
Ragnhildur Stefánsdóttir kenndi mér formgjörð á einu námskeiðinu og eitt kvöldið áttum við hópurinn að vinna í leir. Fengum við hvert okkar 5 kg af leir til að vinna með og hún sýndi okkur hvað við ættum að gera við leirinn til að gera hann tilbúinn fyrir vinnu á honum. Ég hafði aldrei komið nálægt þessum efnivið og hugsaði mér, skítavinna, ekkert annað. En um leið og ég byrjaði að hnoða leirinn eins og hún hafði sýnt okkur að þyrfti að gera, gerðist eitthvað. Á meðan ég hnoðaði leirinn af krafti, brosti ég meir og meir og ég átti erfitt með mig að halda aftur af kátínunni. Ég gjörsamlega trylltist úr gleði og hamingju. Og tilfinningin, ég er kominn heim, var allsráðandi. Ragnhildur tók eftir viðbrögðum mínum og brosti til mín. Hún hefur kannski ekki getað ímyndað sér hvað væri að gerast þarna, og hvað þá ég. Ég lauk mínu verki þetta kvöld og fór heim brosandi allan hringinn og fór á fleiri námsskeið með leirinn. Það var á keramikverkstæði á Klapparstíg sem ég var á í 2 mánuði, ásamt því að vera einn í Myndlistaskóla Reykjavikur og sinna starfinu. 1996 sækist ég eftir að komast inn í Aarhus Kunstakademi og komst inn. Þar með var mín braut í keramikinu hafin, en hún hófst þarna um kvöldið undir stjórn Ragnhildar Stefánsdóttur.
Hvaða aðferð ert þú að nota?
Ég starfa bæði með steypumassa og rauðleirinn. Rauðleirinn nota ég í öll stóru verkin. Hann hnoða ég til og set í form sem ég byggi hlutina upp í. Einnig samanset ég form með honum og leik mér með þann leir mun meira en steypumassann. Steypumassann vinn ég smærri verkin, þó svo að ég geri sum stóru verkin með honum. Einnig set ég þessar leirtegundir saman og vinn ýmis verk með báðum þessum leirtegundum. Ég hef alveg frá byrjun náms ákveðið að halda mig við ákveðinn leir sem ég vinn aðallega með. Stundum bæti ég við öðrum leirtegundum, en aldrei svo að það taki fyrir þau efni sem ég vinn mest með. Stundum nota ég postulín leir, en hann er þó yfirleitt til að setja áferð á þann leir sem ég er með fyrir. Set utan um annan leir og slíkt. Einnig nota ég leirinn í glerunga sem getur gefið mjög góða útkomu, allt eftir hvaða efni eru í glerungunum. Í náminu var okkur kennt að renna, og féll það ekki í kramið hjá mér. Það lærði ég, en er ekki að nota þá aðferð í dag.
Hvernig fórstu að því að koma þér á framfæri erlendis?
Meðan ég bjó í Danmörku notaði ég tækifærið strax eftir nám að fara á milli staða og kynna mig. Hvert sem ég fór var ég með möppu um mig sem ég var búinn útbúa. Ég var með cv sem ég gat skilið eftir á hverjum stað og visitkort. Möppuna skildi ég alltaf eftir ef óskað var eftir því og sótti seinna. Þetta tók töluverðan tíma og þolinmæði en gafst yfirleitt vel. Ég sýndi á mörgum stöðum, stundum ótrúlegust stöðum að mér fannst, en það var allt til að koma sér á framfæri og láta sjá sig. Í dag eru verkin mín í sölu á mörgum stöðum í Danmörku, til dæmis í Illums Bolighus í Kaupmannahöfn, Lyngby og í Aarhus. Louisiana safninu í Kaupmannahöfn, Clay keramiksafninu í Danmörku, Silkeborg safninu og fleiri fleiri stöðum. Í Bandaríkjunum er ég að selja í ABC Carpet and Home í New York. Þetta er ein þekktasta lífsstílsverslunin í Bandaríkjunum í dag. Einnig er ég með verkin mín á Veitingastaðnum ABC V. En ABC er að reka í dag 3 veitingastaði.
Hvernig ég kom inn í það dæmi kom til þess að aðalinnkaupandi ABC kom til Íslands árið 2013 og uppgötvaði verkin mín í gallerínu sem ég er að reka ásamt fleirum listamönnum. Keypti hún einn hlut af hverju sem ég var með þar og hafði síðan samband við mig á Skype þar sem við héldum fund um samstarf okkar á milli. Gerðum við samning okkar á milli og síðan þá hafa þúsundir af hlutum farið frá mér til þeirra. Til að mynda var fyrsta pöntunin frá þeim um 2.500 hlutir. Í dag er ég mikið í Danmörku vegna tengsla minna þar með verkin mín og einnig fer ég til New York til að fylgja samstarfi okkar eftir.
Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum vinnudegi hjá þér?
Ég er yfirleitt kominn af stað á vinnustofunni um klukkan 9 á morgnana. Starfsdagurinn er til ca kl 18 en ég fer oft aftur út um kl 19 og er eitthvað frameftir. Hver vinnudagur er yfirleitt þetta um 12 tímar á dag, stundum minna stundum meira. Dagarnir eru yfirleitt ekki eins, en þó snýst þetta um að framleiða hlutina, búa til nýjungar þegar maður kemur því að, en það er þó yfirleitt þegar ég hef tímann til þess og það er í desember og janúar. Annars er þetta að framleiða og glerja og brenna. Allt á víxl og stundum allt á sama degi. Eftir að umsvifin hafa aukist mikið, þá bætist við öll skrifstofuvinna, sem ég reyni að sinna á morgnana við morgunmatinn og eða þegar ég á mína vakt í gallerínu. Það er mjög nauðsynlegt að skipuleggja daginn sinn vel, því það er margt að líta eftir þegar umsvifin eru orðin eins mikil og raun ber vitni. En þetta er gaman og fjölbreytt og enn skemmtilegra þegar maður er að gera hlutina fyrir sjálfan sig. En maður er allt og eitt í þessu þegar maður er að öllu sjálfur.
Hvernig er hægt að skoða og sjá verkin þín ?
Í dag er ég meðrekandi að galleríinu Stígur á Skólavörðustíg 17b. Þar er ég með töluvert úrval af verkum í sölu, smá og stór. Stóru verkin er hægt að nálgast í Galleri List á Skipholti og Galleri Fold á Rauðarárstíg. Einnig er ég með verk á netinu sem hægt er að skoða, en það er bæði síðan Stígur á Facebook og síðan mín eigin síða, Bjarni Sigurdsson Ceramic Designer.
Abc Carpet and Home eru með sölu á netinu og þar er hægt að sjá hvað er í sölu hjá þeim, og einnig með margar verslanirnar og söfnin í Danmörku.