Marilyn Herdís Mellk

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Marilyn Herdís Mellk, dóttir Kristjönu Bjargmundsdóttur og George Mellk, yngst  þriggja systkina, fædd árið 1961 í New Jersey, Bandaríkjunum. Við mamma dvöldum alltaf á sumrin á Íslandi til að hitta fjölskylduna sem var mér kær. Það varð til þess að ég flutti alfarið heim í janúar 1981 en á undan kláraði ég menntaskóla og var í eitt og hálft ár í California College of Arts and Crafts, Oakland CA. Eftir að hafa unnið við ýmis störf hér, m.a. í leikskóla og auglýsingadeild SÍS, lauk ég námi úr grafíkdeild MHÍ 1987 en í millitíðinni giftist ég og átti 2 börn.

Eftir útskriftina keypti ég pressu, tók þátt í sýningum og seldi myndirnar mínar í nokkrum galleríum. Í nokkur ár var ég ein af listakonunum á grafíkvinnustofunni „Áfram Veginn“ Laugavegi 1 bakhúsi sem var yndislegt tímabil. Núna er ég ein af 12 listamönnum sem reka saman Gallerí Korpúlfsstaði og er ritari í stjórn félagsins Íslensk Grafík sem er hvort tveggja mjög skemmtilegt enda frábært fólk á báðum stöðum.

Marilyn Herdís Mellk

Getur þú lýst verkum þínum?

Þau endurspegla mín viðhorf á lífið hverju sinni. Verkin skiptast á að vera litaglöð og barnsleg í að vera alvörugefin og staðföst.

 

Marilyn Herdís Mellk Marilyn Herdís Mellk

Hvert sækir þú innblástur?

Náttúran og mannlíf er grunnurinn og andstæður birtu og mynsturs heilla mig. Það er yndislegt að ganga í náttúrunni sem breytist og þróast stöðugt og sjá margbreytileikann.

Marilyn Herdís Mellk Marilyn Herdís Mellk

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna með grafík?

Það vakti fyrst áhuga minn þegar ég fór í skólaferð til prentsmiðju dagblaðs í Bandaríkjunum sem mér fannst spennandi. Síðar í menntaskóla þar sem ég eyddi mörgum stundum í myndlistadeildinni fékk ég að prófa lágþrykk (þurrnál). Svo hef ég alltaf tekið eftir myndum sem voru unnar í grafík og verið heilluð.

Þegar ég var í Myndlista- og handíðaskóla Íslands varð ég að ákveða hvaða tækni ég vildi læra eingöngu. Val mitt á þeim tíma stóð á milli málunardeildar og grafíkdeildar og varð grafíkdeildin fyrir valinu.

Marilyn Herdís Mellk

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Ég vinn með ýmsar aðferðir grafíklistarinnar en aðallega koparætingu þar sem myndin er ætt í plötuna með mismunandi aðferðum. Þegar ég er ánægð með útkomuna set ég prentlit á plötuna og þurrka svo af. Liturinn situr eftir í raufunum sem ætast ofan í plötuna. Þá er platan tilbúin til prentunar.

Svo er ég að blanda saman alls konar tækni. Ég hef líka verið að mála og er að fikra mig áfram í því eftir að ég kom úr ferð frá Toscana á Ítalíu þar sem ég lærði meira í olíumálun og var það mikil upplifun.

Marilyn Herdís Mellk

 

Marilyn Herdís Mellk

Marilyn Herdís Mellk

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?

Neibb

Marilyn Herdís Mellk

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

Góð spurning, ég hugsa ekki svo langt. Ætli það verði ekki bara að koma í ljós. Af fyrri reynslu þá veit ég að allt er mögulegt bæði skemmtilegt og ekki skemmtilegt þannig að ég stefni að því að halda mínu striki í listinni, taka þátt í sýningum, halda áfram að prófa eitthvað nýtt og njóta hvers dags.

Marilyn Herdís Mellk

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?

Þegar ég er að vinna grafíkverk í kopar þá er það mismunandi eftir því hvar í ferlinu ég er. Í hugmyndavinnu byrja ég t.d. á þvi að skoða ljósmyndir sem ég hef tekið, skissur, gamlar plötur og skissa upp þangað til ég er ánægð með útkomuna. Síðan er að undirbúa plötuna, vinna hana og æta. Þegar þetta er tilbúið, sem getur tekið nokkra daga, þrykki ég prufuþrykk sem segir mér hvort ég þurfi að endurskoða ferilinn. Að lokum, þegar ég er ánægð, sker ég niður pappír og undibý þrykklitina. Sjaldnast þrykki ég allt upplagið í einu nema ég sé sérstaklega beðin um það.

Marilyn Herdís Mellk

Marilyn Herdís Mellk Marilyn Herdís Mellk

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Gallerí Korpúlfsstaðir, Thorsvegi 1, 112 Rvk.
Gallerí List, Skipholti 50a, 105 Rvk.
Heimasíðan mín sem er löngu komin að því að þurfa uppfærslu www.mhm-art.com

Fyrri greinBestu hugmyndirnar fæðast oft utan vinnustofunnar
Næsta greinBergrún Íris vildi kenna sonum sínum að fylgja hjartanu