Bergrún Íris Sævarsdóttir
Bergrún Íris Sævarsdóttir

Hver er listamaðurinn?

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 33 ára barnabókahöfundur og myndskreytir. Ég myndskreytti fyrstu barnabókina árið 2012 en síðan þá eru þær orðnar um 45 talsins. Ég skrifaði svo mína fyrstu bók árið 2014, myndabókina Vinur minn, vindurinn. Bókinni var ofsalega vel tekið og fékk til dæmis tilnefningu til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Eftir það var ekki aftur snúið.

Eftir það skrifaði ég þrjár myndabækur og í fyrra skrifaði ég fyrstu lengri kaflabókina mína. Það var Langelstur í bekknum og í ár kom út framhaldið, Langelstur í leynifélaginu.

Þetta jólabókaflóðið er ég einnig með myndabókina Næturdýrin fyrir yngri börn.

Næturdýrin er saga um systkinin Lúnu og Nóa sem sofa illa á nóttunni en læra loks að skemmta sér í Draumalandinu. Næturdýrin vann ég með hinni ótrúlega hæfileikaríku tónlistarkonu Ragnheiði Gröndal. Hún samdi gullfallega tónlist við verkið, vögguvísur og hressari lög í bland.

Þegar ég er ekki á fullu í jólabókaflóðinu mála ég akrýl- og olíuverk og er þessa stundina að safna í sýningu.

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Bergrún Íris Sævarsdóttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Getur þú lýst verkum þínum?

Ég vona að rauði þráðurinn í verkunum mínum sé einlægni. Ég reyni í það minnsta að vera einlæg og skapa beint frá hjartanu. Ég efaðist allt of lengi um sjálfa mig og ofhugsaði hluti þar til þeir urðu steingeldir, þurrir og leiðinlegir. Í seinni tíð hef ég lært að slaka á, treysta innsæinu og flæðinu og njóta mistakanna.

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Hvert sækir þú innblástur?

Þegar ég skrifa finnst mér langbest að hlusta á klassíska tónlist. Rachmaninov og Chopin skapa hið fullkomna umhverfi og örva heilann án þess að eyðileggja athyglina. Þegar ég hef tíma fletti ég listaverkabókum og skoða Instagram-síður annarra teiknara. Oft finn ég besta innblásturinn úti í náttúrunni, í fersku lofti, helst með sjóinn fyrir framan mig. Ég bý reyndar við hafið og útsýnið út um stofugluggann er nóg til að koma sköpunarkraftinum af stað.

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Hvernig kom það til að þú fórst að skrifa barnabækur?

Ég hef teiknað síðan ég man eftir mér, og fannst gaman að skrifa sögur þegar ég var yngri. Svo tók við tímabil þar sem ég reyndi við „praktískari hluti“. Ég kláraði Listfræði og bókmenntafræði í Háskólanum, varð forstöðumaður í félagsmiðstöð, stýrði sjónvarpsþættinum Innlit Útlit og vann um tíma á Birtingi.

Þegar eldri sonurinn var tveggja ára skrifaði ég fyrstu bókina mína en ríghélt enn í öryggið sem fylgir því að vera launþegi. Þegar ég varð svo ólétt aftur fann ég sterkt fyrir því að ég var ekki á réttri hillu í lífinu. Ég vildi kenna sonum mínum að fylgja hjartanu og elta draumana sína en upplifði mig sem algjöran hræsnara að vera sjálf dauðhrædd við að taka stökkið. Loks fann ég kjarkinn, sagði upp á Birtingi (nýtekin við ritstjórastólnum á Séð og heyrt) og hélt út í óvissuna.

Það að vera sjálfstætt starfandi listamaður er alls ekki auðvelt en það hefur ótal frábæra kosti.

Ég er til dæmis eigin herra og get því sinnt strákunum mínum, til dæmis á starfsdögum og veikindadögum. Starfsumhverfi Íslendinga er ekki það barnvænasta og því ómetanlegt að hafa tækifæri til að vera með sveigjanlegan vinnutíma. Á móti kemur að ég þarf þá oft að vinna kvöld og helgar en það er fórnarkostnaður sem borgar sig.

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Ég vinn mest í tölvu en vatnslitir, trélitir og pennar eru aldrei langt undan. Þegar ég mála finnst mér gaman að mála næstum ofurraunsæjar myndir eftir ljósmyndum.

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?

Af mínum verkum er það þessa stundina bókin Næturdýrin. Tónlistin hennar Röggu er svo falleg og ég er mjög stolt af bókinni, bæði myndum og sögu. Ég elska að heyra litla krakka tala um Lúnu og Nóa og syngja Köngulóarlagið.

Bergrún Íris SævarsdóttirBergrún Íris Sævarsdóttir

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

Ég vona að ég geti haldið áfram að skrifa og myndskreyta barnabækur. Starfsumhverfi barnabókahöfunda er ekki nægilega öruggt og það þarf að að fjölga í hópi þeirra sem fá starfslaun og þá sérstaklega þeirra sem skrifa fyrir börn. Þetta eru bækur sem seljast ekki í bílförmum og vonlaust að treysta á þennan örmarkað. Jafnvel söluhæstu barnabókahöfundarnir sinna öðrum störfum og verkefnum til að láta enda ná saman.

Til að efla læsi íslenskra barna er til eitt einfalt lykilsvar: barnabókin. Til að rithöfundar geti einbeitt sér að skrifum barnabóka, heimsóknum í skóla og öðru sem því tengist, er nauðsynlegt að efla stéttina. Við eigum algjörlega frábæra barnabókahöfunda og erum moldrík af heimsklassa myndskreytum en til að þetta fólk geti unnið við barnabækur þarf aukinn stuðning frá ríkinu.

Við barnabókahöfundar gleðjumst að sjálfsögðu alltaf þegar við sjáum barn með bók, hvort sem bókin var keypt í búð eða fengin á bókasafni. Barnabók er ekki munaðarvara og við þurfum að tryggja öllum börnum jafnt aðgengi að bókum, til dæmis með því að að fylla skólabókasöfnin af vönduðum bókum.

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum vinnudegi hjá þér?

Eftir að ég kem drengjunum í skóla og leikskóla byrja ég að vinna í verkefnum dagsins sem eru mjög fjölbreytt og því enginn dagur eins. Svo þarf að funda með rithöfundum, ritstjórum og öðru samstarfsfólki. Þessa dagana fer ég í nokkrar skólaheimsóknir í viku, spjalla við krakka um ritlist, bækur og fleira skemmtilegt og les upp úr bókunum mínum.

Inn á milli útgáfutarna er ég með ýmis skemmtileg verkefni í gangi. Ég myndskreyti til dæmis fyrir Unicef og Menntamálastofnun og tek að mér sérpantanir fyrir einstaklinga og ýmis fyrirtæki.

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Bergrún Íris Sævarsdóttir

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Ég er með vefsíðu (bergruniris.com), instagram (@oskalistinn_art) og tvær facebook-síður (Bækur Bergrúnar / Óskalistinn).

Bergrún Íris Sævarsdóttir

Fyrri greinAndstæður mynsturs og birtu eru heillandi
Næsta greinVinnudagurinn er langt frá því að vera dæmigerður hjá Sissa ljósmyndara