Hver er listamaðurinn?
Embla Sigurgeirsdóttir
Árið 2011 leiddu örlögin mig einhvern veginn í áttina að leir og þá við nám í Mótun við Myndlistarskólann í Reykjavík. Það var ekki aftur snúið og ástríðan fyrir efninu lifnaði við. Námið var tvö ár en eftir það lá leiðin til norður-Englands þar sem að ég kláraði BA(hons) í Contemporary Applied Art við The University of Cumbria.
Eftir að heim kom fékk ég síðan aðstöðu fyrir vinnustofuna mína í Íshúsi Hafnarfjarðar og þar kúri ég enn enda er þar yndislegur andi á meðal góðra vina.
Getur þú lýst verkum þínum og aðferðum við að vinna þau?
Verkin mín, sem ég vinn í postulín, einkennast af mynstrum sem ég sker út í efnið með sértsökum hníf og mála síðan til að undirstrika þau. Ég nota lítið glerung þar sem að ég heillast af mattri áferð postulínsins og þannig held ég líka fínlegum smáatriðunum af skurðinum allt til lokaútkomu.
Ég handsker hvern hlut og get þannig leyft mér að spila með mismunandi mynstur eftir eftirspurn og skapi hverju sinni. Litirnir sem ég vinn með hafa aðalega verið svart og hvítt og henta vel þar sem að ég spila mikið með ljós og skugga í verkum mínum.
Luktirnar mínar hafa kannski að mestu einkennt mig síðastliðið ár en í þeim hef ég verið að þynna postulínið mikið með skurðinum þannig að ljós flæðir auðveldlega í gegn um það.
Síðastliðna mánuði hef ég síðan verið að leika mér að ganga ennþá lengra með efnið þar sem ég reyni á þolmörk þess verulega og hversu langt ég get farið með að skera það til áður en það gefur eftir.
Postulín er viðkvæmt í vinnslu en sterkt eftir brennslu og reynir það verulega á þolinmæði manns um leið og það heillar mann. Maður þarf að vinna með því, fá það á sitt band og þekkja viðkvæmni og veikleika þess á mismunandi stigum.
Hvert sækir þú innblástur í verk þín?
Innblásturinn af verkunum hafa oft komið frá sjálfum eiginleikum efnisins og hvað það hefur uppá að bjóða. Ég skissa mikið í efnið sjálft og finnst vinnuferlið leiða mig alltaf í nýja átt og inn í ný ævintýri.
Hugmyndir birtast einnig við mistök en þau leiða af sér ýmislegt spennandi þannig að ég lít öðruvísi á það þegar eitthvað fer á annan veg en það átti að gera, maður veit aldrei nema að það ýti manni í átt að einhverju áhugaverðu.
Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?
Á vinnustofunni skiptist verkferlið í nokkra hluta og reyni ég oftast að halda mig við eitt verk í einu þó að það sé nú ekki alltaf að takast. Maður á það til að hlaupa á milli verka þar til að maður veit ekki hvað snýr upp né niður og er það ekki sérlega vænlegt þegar kemur að afköstum. Ég er að bæta mig í þessu hægt og rólega og reyna að skipuleggja mig betur en skal alveg viðurkenna að þetta hefur svolítið verið minn veikleiki hingað til.
Það hjálpaði mikið að ég endurhannaði vinnustofuna mína verulega í sumar einmitt til að hafa betri stjórn á öllu og geta unnið eftir betra verkferli.
Ég myndi segja að dagarnir skiptist í fjóra mismunandi ferla.
1Fyrst byrjar maður á að steypa hluti í gifsmótum og skera í þá en skurðurinn þarf að fara fram á meðan postulínið er á ákveðnu rakastigi.
2Næsta stig er að pússa og fínvinna hlutina eftir að þeir eru þornaðir og undirbúa þá fyrir hrábrennslu en þetta er viðkvæmasta stigið í ferlinu þar sem að þurrt og þunnt postulín er verulega viðkvæmt.
3Þriðja stig tekur við eftir hrábrennslu en þá þarf að hreinsa hlutina, glerja þá og mála og setja þá síðan í lokabrennslu.
4Seinasta stigið í ferlinu er síðan að pússa allt saman til að óglerjað yfirborðið sé mjúkt og þægilegt viðkomu en það getur annars minnt svolítið á krítartöflu sem er ekki sérlega notalegt.
Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi hjá þér?
Mér finnst alltaf jafn gaman að vinna með þessa skurðtækni en hlutirnir eru auðvitað misskemmtilegir að vinna. Ég er frekar sveimhuga og fæ fljótt leið á því að gera sama hlutinn lengi og þannig séð hægt að segja að ég á mér nýtt uppáhalds verk í hverri viku. Oftast er það þá eitthvað nýtt sem ég er að vinna að og ég er spennt fyrir á þeirri stundu.
Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?
Ég rek gallerí ásamt 7 öðrum keramik hönnuðum sem heitir Kaolin og er á Skólavörðustíg 5 í Reykjavík. Þar er hægt að nálgast öll mín verk og rekast jafnvel á mig í leiðinni þar sem að við skiptumst þar á vöktum. Ég sel líka í Litlu Hönnunarbúðinni í Hafnarfirði.
Instagram: emblasig
Facebook: byEmbla