Elva Hreiðarsdóttir

Hver er listamaðurinn?

Elva Hreiðarsdóttir er fædd 1964 í Ólafsvík. Hún lauk B.ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands, myndmenntadeild, 1989 og BA prófi frá Listaháskóla Íslands og grafíkdeild árið 2000. Elva er með vinnustofu á Korpúlfsstöðum og kennir einnig í Myndlistarskólanum í Reykjavík, Korpúlfsstaðaútibúi.

Að auki hefur Elva sótt ýmis námskeið í myndlist og lærði m.a. hjá Dan Welden Master printer í Bandaríkjunum.

Elva Hreiðarsdóttir

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?

Viðfangsefni mitt í myndlistinni er almennt tengt náttúrunni. Ég fer út um allar trissur, tek myndir og skissa. Vera mín nálægt sjó, við fjöll og bergveggi hefur haft sérstök áhrif á mig og mína sköpun. Þar sem maður upplifir lifandi hringrás og merki um mótun og myndun náttúrunnar, þetta ótrúlega fyrirbæri sem getur verið í senn ofurfagurt og yfirþyrmandi. Hafið fagurt og slétt með sín gjöfulu fiskimið en einnig órólegt og beinlínis hættulegt.

Stíll minn er sennilega almennt hálfabstrakt, óhlutbundin form sem eiga sér þó einhverja fyrirmynd. Þau efni sem ég nota í minni myndgerð eru eiturefnafrí og umhverfisvæn og finnst mér það mikilvægt.

Elva Hreiðarsdóttir

Hvað var það sem fékk þig til þess að byrja að stunda myndlist?

Sem barn og unglingur var ég síteiknandi. Það var samt ekki fyrr en ég var komin í áttunda bekk í grunnskóla sem ég fór í myndmennt í fyrsta skipti. Það var ekki boðið upp á slíkt víða úti á landi á þeim tíma og ekkert framboð í myndlist almennt. Eitthvað virðist þó minn fyrsti myndmenntakennari hafa séð í mér því hann gaf mér bók um anatómíu sem ég geymi eins og fjársjóð, með þeim orðum að hann vonaðist til að ég myndi halda áfram á þessarri braut. Það var svo ekki fyrr en ég var farin suður í skóla sem tækifærin opnuðust fyrir mér í þessum geira.

Í Kennaraháskólanum opnaðist fyrir mér grafíklistin og það var eitthvað í henni sem höfðaði sérstaklega til mín. Þegar ég fór svo að kynna mér grafíklistina að ráði var ekki aftur snúið. Það var eitthvað við það vinnuferli og handverk sem höfðaði til mín og mér fannst fjölbreytileiki grafíklistarinnar mjög spennandi. Sífelld þróun en um leið miklar hefðir og saga. Pínulítið gamaldags en um leið ótrúlegar nýjungar.

Elva Hreiðarsdóttir

Hvernig hefur þinn stíll orðið til og þróast í gegnum tíðina?

Stíll minn hefur orðið til með mikilli vinnusemi og oft þrautseigju. Það að kynna sér það sem er í gangi og gera tilraunir eru líka mikilvæg atriði í þróun stílbragða. Þróunin hefur síðan orðið með aukinni þekkingu á miðilinn og þroska almennt.

Elva Hreiðarsdóttir

Elva Hreiðarsdóttir

Hvert sækir þú innblástur ?

Eins og áður segir sæki ég innblástur fyrst og fremst í íslenska náttúru. Ég sæki einnig innblástur á námskeiðum og með því að lesa mér til og fara á sýningar. Einnig geta samskipti og samvinna við vini sem eru sjálfir listamenn og maður treystir veitt mikinn innblástur. Ég sæki einnig innblástur í kyrrð, því með því að kyrra hugann fer sköpunin af stað.

Elva Hreiðarsdóttir

Er eitthvað efni vinsælla en annað hjá þér sem þú hefur verið að vinna með?

Ég vinn almennt í efni sem myndu kallast frekar óhefðbundin í grafík. Hef mest unnið í svokallaða collograph tækni þar sem ég geri plöturnar þannig að ég teikna með efnum s.s. sandi, lími, gesso o.fl. Oft nota ég líka efni sem eru fengin eru úr náttúrunni. Þá vinn ég einnig sólarætingar og blandaða tækni. Ég hef einnig gert töluvert af því að þrykkja beint af fiskum með aðferð sem nefnist Gyotako upp á útlensku og á rætur sínar að reka til kínverskra fiskimanna frá 1880.

Elva Hreiðarsdóttir

Er eitthvað verk í meira uppáhaldi hjá þér en annað?

Nei ég get ekki sagt það beinlínis. Sum verk hafa kannski meira vægi en önnur enda sköpunarferlið og vinnan mjög persónuleg.

Elva Hreiðarsdóttir

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum vinnudegi hjá þér?

Vinnudagar mínir eru frekar óhefðbundnir almennt. Ég vinn mikið í skorpum. Skissu- og undirbúningsvinna getur staðið dögum saman, gerð platna svo aftur dögum saman svo eru þrykkdagar og svo frágangur verka. Svo kenni ég suma daga. Maður þarf að vera mjög skipulagður og vinnudagarnir eru oft langir en svo reynir maður að taka frí inn á milli. Svo eru dagarnir oft öðruvísi ef sýning stendur fyrir dyrum.

Elva Hreiðarsdóttir

Þið hjónin rekið Artist Residency á Snæfellsnesi. Hvernig kom það til og hvernig virkar Artist Residency?

Við hjónin festum kaup á Hvítahúsi í Krossavík við Hellissand af hjónunum Steingerði Jóhannsdóttur og Árna Emanúelssyni sem ráku það hús sem vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Við tókum við þeim rekstri og höfum bætt við starfsemina námskeiðahaldi fyrir listamenn en einnig fyrir börn og unglinga og almenning. Ég hef sjálf rekið mörg þessarra námskeiða en einnig fengið til liðs við mig aðra listamenn íslenska og erlenda.

Varðandi fyrirkomulag Artist Residency þá er það þannig að listamenn koma til lengri eða skemmri dvalar í húsinu, yfirleitt erlendir listamenn hingað til og alls staðar að úr heiminum og vinna í hina ýmsu miðla s.s myndlist, tónlist , skriftir o.fl. Upphaflega kynntist ég Hvítahúsi með því að dvelja þar sjálf við vinnu, ýmist ein eða með öðrum listamönnum. Fyrir mér er það hús og umhverfi þess einstakt til listsköpunar og tenging mín við svæðið er auðvitað plús.

THE HVITAHUS ICELAND ARTIST RESIDENCY
THE HVITAHUS ICELAND ARTIST RESIDENCY

Hvar er hægt að skoða og versla verkin þín?

Verkin mín eru til sölu á Stíg Skólavörðustíg í Reykjavík og á vinnustofunni minni á Korpúlfsstöðum. Þá eru verk eftir mig einnig til sölu í Bandaríkjunum hjá Doxa Home í Tampa í Florida sem er í raun innanhússhönnunarfyrirtæki en það fyrirtæki hefur notað mikið af mínum verkum í hönnun sína. Þá er ég með fésbókarsíðuna Elva Art og vefsíðuna www.elva.is sem er reyndar í upphalningu.

Fyrri greinÞórdís Elín einbeitir sér að samspili manns og náttúru
Næsta greinLíf mitt verður ein samfeld sigurganga