Hver er listamaðurinn?
Ég heiti Sigurður Sævar Magnúsarson og er 20 ára myndlistarmaður. Ég fékk áhuga á myndlist sjö ára, tók svo ákvörðun að gerast myndlistarmaður 10 ára og hélt mína fyrstu einkasýningu þrettán ára.
Ég hef komið víða við og haldið um 20 einkasýningar til dæmis í Hörpu, Kringlunni, Perlunni og víðar.
Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?
Ég er með vinnustofuna heima þannig ég er mikið þar. Þegar það er mikið að gera fer ég strax á vinnustofuna og mála þar til ég verð svangur og elda mér þá eitthvað í hádegismat. Eftir máltíðina fer ég aftur á vinnustofuna og vinn til kvölds en eftir kvöldmat fer ég oft í líkamsræktina og í sund svo kem ég heim um 23:00 og byrja ég þá aftur að vinna þar til ég fer að sofa rétt eftir miðnætti.
Hvert sækir þú innblástur í verk þín?
Ég sæki víða innblástur meðvitað eða ómeðvitað en 2015-2016 málaði ég 30 olíumálverk sem öll voru unnin með innblæstri frá ljóðum Megasar og sýndi ég afraksturinn á einkasýningu í Perlunni í september 2016.
Hvar sérðu þig í framtíðinni?
Á næsta ári stefni ég á áframhaldandi listnám erlendis og mun ég því dvelja mikið erlendis næstu árin, læra í skóla, fara á listasöfn, heimsækja listamenn og halda sýningar úti. Svo er ég með stórar hugmyndir varðandi listina sem ég mun framkvæma á næstu árum en get ekki gefið upp hér.
Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?
Ég er ekki með neitt gallerí eða umboðsmann á bak við mig þannig best er fyrir þá sem vilja kaupa verk að koma í heimsókn á vinnustofuna mína á Háaleitisbraut en ég er að vinna í því að setja upp vefsíðu en á meðan hún er ekki tilbúin er best að skoða verkin mín á likesíðunni minni á Facebook eða á Instagram.