Hver er listamaðurinn?
Hann heitir Samúel Jóhannsson (sajóh.) fæddur 1946 á Akureyri. Samúel, hefur í áratugi fengist við myndlist og haldið fjölmargar sýningar bæði heima og erlendis. Samúel vinnur myndverk sín með akríllitum, tússbleki, járni og lakki.
Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?
Litríkur, fígúratífur og leitandi.
Hvað var það sem fékk þig til þess að byrja mála?
Hef ekki hugmynd, hef frá því ég man eftir mér verið teiknandi á allt sem hægt var að teikna á. Svo upp úr unglingsárunum fór ég á nokkur námskeið í málun og teikningu. Síðar meir hef ég svo einnig unnið mikið í vatnslitun og járni.
Hvernig hefur þinn stíll orðið til og þróast í gegnum tíðina?
Með endalausri vinnu og ákafa þess sem leitar að hinu óþekkta. Einhvern vegin þannig gerast hlutirnir hjá mér.
Hvert sækir þú innblástur ?
Inn á við. Hver lína er upphaf á nýju ævintýri. Ég vinn algjörleg í augnablikinu, það er annaðhvort allt eða ekkert !
Er eitthvað efni vinsælla en annað hjá þér sem þú hefur verið að vinna með?
Nei ekki get ég sagt það. Hvert verk sem ég byrja á er það mest spennandi hvort sem það er í málverkinu, vatnslitunum, eða teikningum. Í dag hef ég verið að vinna mikið í að blanda saman stórum teikningum og vatnslitum.
Hvaða verk er það sem þú hefur unnið fram að þessu sem þér þykir mest spennandi?
Alltaf það síðasta!
Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér?
Hef unnið stanslaust að myndverkagerð síðan 1980 (alltaf haft góðar stórar vinnustofur) svo eftir að ég hætti að vinna launaða vinnu get ég alfarið snúið mér að þessari óslökkvandi áráttu minni að gera myndverk. Í dag er ég alla daga á vinnustofu minni á neðri hæð heimilis míns ( Mark 601 Eyjafjarðarsveit). Er mættur þar um 09:00 og er að til 19:00 (með smá matar og kaffi hléum).
Hvar er hægt að skoða og versla verkin þín?
Á vinnustofu minni í Marki sími: 8987326 og á heimasíðu: www.samueljohannsson.wordpress.com