Hver er listamaðurinn?

Bryndís Pernille Magnúsdóttir heiti ég og er fædd 1971. Lærði gullsmíði í 4 ár í Flórens á Ítalíu ásamt öðru listtengdu námi. Rak listagallerí í göngugötunni á Akureyri í nokkur ár ásamt Oddrúnu systur minni og Margréti Jónsdóttur leirlistakonu eftir að ég flutti heim frá Ítaliu.

Ég hef óbilandi áhuga og ánægju af útivist sumar sem vetur og hef sett nagladekk á hjólið mitt í mörg ár. Fjallgöngur að sumri og skíði á veturna. Nota mikið backcountryskíði (stálkantaskíði) til ađ komast ótroðnar slóđir. Hef nefnilega verið að kljást viđ erfiða slitgikt í baki í 14 ár sem hefur haft leiðindaáhrif á lífsgæðin, en tek einn dag í einu og hef unun af bæđi vinnunni minni og lífinu yfirleitt. Hef alltaf lesiđ mikið og er alltaf með nokkrar bækur til taks!

Ef ég hefđi ekki lært gullsmíði hefđi ég gjarnan viljađ fara í ljósmyndun.

Er mikill dýravinur og hef af þeirri ástæðu veriđ grænmetisæta í 25 ár. Á þrjá ketti sem settust allir að hjá mér af mismunandi ástæðum. Hef fengiđ vergangskisur heim á tröppur síđan ég flutti heim og hefði örugglega stofnađ „kattholt“ fyrir löngu hefđi ég haft hugrekki í þann pakka.

Getur þú lýst verkum þínum?

Verkin mín eru öll unnin úr silfri og skreytt með ýmist perlum eða íslenskum steinum, sem allir koma frá Ágústi afa mínum heitnum.

Afi byrjađi ađ klífa fjöll og safna steinum þegar hann var kominn á sjötugsaldurinn og átti stórkostlegt steinasafn sem hann síðar ánafnaði Háskólanum á Akureyri.

Hver skartgripur er unnin í höndunum frá grunni og engir tveir skartgripir eru eins. Og ég aðhyllist gjarnan allt sem tengist „slow“ sbr „slowfood“ og heyra skartgripir mínir hiklaust undir „slowjewellery“.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Dæmigerđur vinnudagur byrjar á að ég geng eða hjóla á vinnustofuna mína.  Í öllum veðrum og vindum. Vinnustofan er staðsett á Óseyri, í nálægð við sjóinn.

Mér finnst ómissandi að draga að mér ferskt loft og fá þessa útivist áđur en ég sest niður. Ég byrja iðulega daginn á að vinna í sérpöntunum. Leyfi svo bara ímyndunaraflinu að streyma við smíðarnar. Stundum skissa ég og er með ákveðna hönnun í huga sem svo tekur sífelldum breytingum í vinnuferlinu.

Þar sem ég get ekki setið lengi í einu sökum giktar, tek ég stundum stutta göngutúra við sjóinn og sést svo aftur. Vinnudagurinn endar svo í Sundlaug Akureyrar í gufubaði og heitum potti.

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Innblásturinn sæki ég mikið í umhverfið allt, þá helst náttúruna. Við systurnar héldum sýningu í Kaupmannahöfn í haust þar sem öll línan byggđist á gígum, hrauni og hálendinu okkar. Við kölluðum hana „heartbeat“ sem var tilvísun í hjartslátt landsins okkar og hálendi Íslands og gerðum m.a. hringa sem minntu á Herðubreið og Hverfell. Einnig kemur María Guðsmóðir fyrir hjá mér sem er alveg örugglega inpirasjon frá Ítalíuárunum fyrir utan að hún er í sérstöku uppáhaldi.  Einnig sæki ég innblástur í skartgripasmíði ýmissa þjóðflokka frá öllum heimshornum.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verk þín?

Verkin eru til sýnis og sölu í gallerí Margrétar Jónsdóttur Gránufélagsgötu 48 á Akureyri fram að jólum og einnig í Magnolíu á Skólavörđustíg. Eftir jólin verđa þau svo í Krabbastíg 4, heimili mínu þar sem ég hef útbúiđ lítiđ sýningarhorn. Skođa má hönnunina á Facebook síđu BOM SILVER !

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

Í framtíðinni vonast ég til að geta unnið áfram við hönnun og smíðar á skartgripum eða jafnvel farið aftur í einhverskonar listnám. Jafnvel eitthvað allt annað. Myndi gjarnan vilja skoða meira af heiminum samhliða þessu en annars njóta lífsins hér heima með þeim sem mér þykir vænt um.

Fyrri greinGréta Gísladóttir – Listamaður í rómantísku umhverfi
Næsta greinHannar og handsaumar barnaföt úr sérprentuðu efni