Margrét Jónsdóttir

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Margrét Jónsdóttir og er fædd og uppalin á Akureyri. Strax á unga aldri fékk ég áhuga á listum og handverki og það að búa til hluti var stór þáttur í leikjum æsku minnar. Ég kem úr stórri skapandi fjölskyldu þannig að ég hafði gott veganesti að heiman. Einnig sótti ég námskeið í Myndlistaskólanum á Akureyri.

Mér fannst alltaf svo sjálfsagt að feta veg listarinnar og fékk mikinn stuðning til þess úr foreldrahúsum. Leirinn heillaði mig strax þegar ég var unglingur og þegar ég skoða gamlar teikningar frá því ég var stelpa þá er myndefnið oft bollar og skálar og annar heimilisbúnaður.

Ég minnist þess að ég lét mig hafa það að drekka hvern tebollann á eftir öðrum heima hjá bestu vinkonu minni þó mér finndist það vont því mér þóttu stóru leirbollarnir þeirra svo fallegir og mig langaði svo að drekka úr þeim og handleika þá. Þegar ég var 18 ára flutti ég til Danmerkur og dvaldi þar í 6 ár við nám bæði á Bornholm og í Listiðnaðarskólanum í Kolding. Ég kom aftur heim til Akureyrar þegar ég var 25 ára og hef unnið á eigin verkstæði síðan þá svo það eru orðin mörg tonn af leir sem ég hef hnoðast með í gegnum tíðina.

Margrét Jónsdóttir

Margrét JónsdóttirMargrét Jónsdóttir

Getur þú lýst verkum þínum?

Ég vinn mest að gerð nytjahluta, mér finnst mikilvægt að hversdagslegir munir sem við notum daglega séu fallegir og vel gerðir og fari vel í hendi. Allir mínir hlutir eru handgerðir, ýmist renni ég þá á rennibekk eða flet leirinn út og móta, sumt legg ég í gifsmót á meðan að leirinn er aðeins að harðna. Það eru ótalmörg handtök við hvern grip og ferlið tekur marga daga.

Eftir mótun þarf leirinn að þorna og svo þarf að brenna hlutina stundum þrisvar sinnum. Verkin mín eru augljóslega handunnin og ég geri form hlutanna oft ósamhverft og það fer vel við einfalda hvíta glerunginn sem ég nota mikið á mína hluti. Mér finnst mikilvægt að form og glerungur fari vel saman og ef ég vinn með litaða glerunga, mynstur og gull þá verður formið að vera einfaldara en þegar ég nota hvítan glerung.

Margrét JónsdóttirMargrét JónsdóttirMargrét Jónsdóttir Margrét Jónsdóttir

Hvernig fórstu að því að koma þér á framfæri erlendis?

Það er mikilvægt fyrir mig að taka þátt í sýningum því þá á sér stað annarskonar sköpun, ég nýti þau tækifæri til að gera eitthvað nýtt og þroska mig listrænt. Í byrjun árs 2017 lokaði ég galleríinu mínu og einbeitti mér allt árið að sýningu sem heitir Super Black og var hún sett upp bæði í Kaupmannahöfn og í Færeyjum. Við unnum saman  í þessu ferli ég og Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður þó um væri að ræða tvær einkasýningar.

Sýningin verður sett upp í Listasafninu á Akureyri í febrúar 2019

Hún fjallar um umgengni okkar við náttúruna og ég spyr þeirrar spurningar hvort við færum betur með hana ef við sæum hana eins og mannslíkama með líffæri eins og okkar eigin. Þar blanda ég saman nytjalist og óhlutbundnum munum sem ég raða saman í stór líffæri eins og hjarta, lifur og meltingarfæri. Verkin liggja á gólfinu og minna á hraunbreiðu eða svartan sand í Íslenskri náttúru.

Margrét JónsdóttirMargrét Jónsdóttir

Hvert sækir þú innblástur?

Innblástur að verkum mínum kemur víða að. Hann getur verið frá hvítri snjóbreiðu, fallegu lagi sem heyrist í útvarpinu, minning úr eldhúsinu hennar ömmu sem átti svo fallegt skálasett með bláum stjörnum, eða frá þrá eftir kyrru löngu sumarkvöldi. Ferðalög hafa alltaf haft mikil áhrif á mig, bæði vegurinn að heiman og ekki síður vegurinn heim, því það er eins og ég sjái allt í skýrara ljósi þegar ég sný til baka, eins og gleraugun  hafi verið pússuð.

Margrét Jónsdóttir

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

Það er erfitt að nefna uppáhaldsverk, en auðvitað er heimilið okkar fullt af verkum eftir mig og mörg þeirra eru eitthvað aðeins öðruvísi en þau áttu að verða. Og svo undarlega sem það kann að hljóma þá eru þau bara oft svo fín og hafa sinn sérstaka karakter. Svo koma skörð og skrámur í hlutina af langri notkun og það er bara líka uppáhalds því þá er augljóst að þeir hafa verið mikið notaðir og nýttir.

Margrét Jónsdóttir

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Klukkan 8 alla virka daga kveiki ég ljós á vinnustofunni. Þá er ítalska kaffikannan sett á helluna og líf færist í húsið neðst í Gránufélagsgötunni sem er á hafnarsvæðinu á Akureyri. Ég vinn oftast til klukkan 13 og fer þá í mat. Svo kem ég gjarnan aftur og held áfram. Leirinn er þannig efni að oft þarf ég aðeins að skreppa á ólíklegustu tímum  á vinnustofuna og  setja eitthvað inní plast svo leirinn ofþorni ekki eða til að athuga hvernig brennslan gengur í ofninum.

Að vera listamaður er lífsstíll, mörkin milli vinnu og bara þess að lifa og draga andann eru óljós, er ég alltaf í vinnunni eða alltaf í fríi, hver veit?

Ég er með sölugallerí á vinnustofunni og þar er opið á þriðjudögum og föstudögum frá 15-18. Ég nýti þann tíma líka til vinnu. Á sumrin er ég með lengri opnunartíma og svo er fólki alltaf velkomið að hafa samband við mig á öðrum tímum.

Helgina 1.-2. desember verðum við Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistamaður með pop up sýningu á vinnustofunni hennar á Unnarbraut 20, Seltjarnarnesi.

Margrét Jónsdóttir

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Verkin mín má skoða á:
Heimasíða: www.margretj.com
Facebook:  www.facebook.com/margretleirlistakona
Instagram: margret.ceramics

Fyrri greinVinnudagurinn er langt frá því að vera dæmigerður hjá Sissa ljósmyndara