Hver er listamaðurinn?

Guðný Hafsteinsdóttir

Ég er fædd í Vestmannaeyjum en flyt á höfuðborgarsvæðið sjö ára og ólst upp í Kópavogi.

Ég er menntaður kennari og starfaði sem slíkur í 10 ár í Kópavogi. 1989 flutti ég til Danmerkur því ég ætlaði að læra bókasafnsfræði. Ég byrjaði hinsvegar á því að fara á keramiknámskeið, kolféll fyrir leirnum og ákvað að venda mínu kvæði í kross og hóf nám í MHÍ þegar ég sneri aftur heim.

Ég  fór eina önn sem skiptinemi til Finnlands og var það mjög lærdómsríkur tími og myndi ég mæla eindregið með því að nota tækifærið á meðan á námi stendur og upplifa ólíkan kúltur og kennslufræðilega nálgun á náminu.

Vinnustofuna Skruggustein, Auðbrekku 4 í Kópavogi hef ég rekið ásamt fleirum síðan ég lauk námi. Að reka vinnustofu í samvinnu við aðra gerir það að verkum að auðveldara og hagkvæmara er að búa vinnustofuna vel úr garði tækjalega séð og nýting á rými verður betri. Þar fyrir utan er félagsskapurinn mjög hvetjandi og við lærum hver af annari.

Getur þú lýst verkum þínum?

Ég geri aðallega nytjahluti og sæki innblástur í umhverfið. Skarfastellið mitt vann ég fyrir veitingastað við höfnina en það er innblásið af skarfinum og umhverfi hans.

Skarfur

Hvert sækir þú innblástur?

Í tengslum við HönnunarMars tók ég þátt í verkefni sem bar yfirskriftina Shift og snérist um samvinnu íslenskra og skoskra hönnuða. „Sporin“ mín sem ég sýndi á HönnunarMars í ár eru innblásin af brautarteinum en hugmyndina fékk ég þegar við íslensku hönnuðurnir sóttum skosku hönnuðina heim og þurftum að fara í langt lestarferðalag.

Spor Tracks

Hvaða aðferð ert þú að nota?

Aðferðirnar sem ég nota eru í grunninn, handmótun og steypuvinna. Ég steypi flesta nytjahlutina mína. Forvinnan er mikil því fyrst þarf að gera mót og ætli ég að steypa t.d. bolla þarf ég að gera sirka tíu mót að sama formi. Mótin endast síðan í x langan tíma, en þá þarf að endurnýja þau.

Skarfur

Hvernig kom það til að þú fórst að leira?

Leiðinlegast þykir mér að gera mót en skemmtilegast að handmóta og alltaf er spennandi að vinna að nýjum hugmyndum. Mest krefjandi  finnst mér hins vegar að glerja. Yfirleitt er ótrúlega gaman að opna ofninn og sjá afraksturinn, það var nú ekki alltaf gleðiefni þegar ég var að byrja í faginu.

Salt bátar

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér?

Ég myndi segja að það að vera keramiker er mjög fjölbreytt vinna, dagarnir ekki dæmigerðir og mikið um nýjar áskoranir.

Baugar Halos

Getur þú gefið ungum listamönnum einhver ráð?

Ég tel að listamenn og hönnuðir gætu náð betri árangri með meiri samvinnu, hún getur falist í svo mörgu og styrkt stöðu allra. Það er mjög töff að vera einyrki.

Baugar Halos

Hvar er hægt að skoða og versla verkin þín?

Vörurnar mínar er hægt að skoða á heimasíðunni gudnyhaf.is og á instagram undir gudnyhaf

Allaf er hægt að mæla sér mót við mig og koma upp á vinnustofuna í Auðbrekku 4. Kópavogi.

GSM: 6992992

Fyrri greinSpennandi að sjá hvað verður til á striganum
Næsta greinLoksins nægur tími til að sinna myndlistinni