Hver er listamaðurinn?

Áslaug Guðfinna Friðfinnsdóttir heiti ég, er 36 ára, móðir, eiginkona, keramiker og kennari. Uppalin á Seltjarnarnesi, stoppaði 5 ár í Danmörku og bý nú í Kópavogi.

Ég er mjög skipulögð og plönuð týpa og því gaman að segja frá því að planið var aldrei að verða keramiker heldur gerðist það meira fyrir tilviljun að ég fór í slíkt nám í Århus kunstakdemi í Danmörku. Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa og búa til og voru þessi 4 ár sem ég fékk í keramiknáminu algjör forréttindi fyrir mig.

Getur þú lýst verkum þínum?

Einfaldleiki og endurtekningar einkenna mín verk.

 

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Í hönnunarferlinu fókusa ég á að verkin mín passi inn á venjuleg heimili, jafnframt finnst mér mikilvægt að verkin geti notið sín ein og  sér, sem og í samspili með öðrum verkum og munum.

Ferlið frá hugmynd að fullgerðu verki getur verið mjög mismunandi og kemur innblásturinn héðan og þaðan. Best  finnst mér að byrja opið, vinna með orð og myndir og fara svo í módelvinnu með leirinn.

Dúddarnir mínir sem eru veggverk, eru til dæmis unnir út frá myndavinnu þar sem að ég vann með hinar ýmsu grænmetistegundir og endaði á að vinna með skrautblómkál. Bollarnir mínir og skálar eru hins vegar unnir út frá sögu um íslensku tröllin.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin þín?

Þær aðferðir sem ég er að vinna með núna eru aðalega mótun leirs, samanber dúddarnir, og svo renni ég á rennibekk bollana og skálarnar.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Leirvinna inniheldur bið hér og þar sem að leirinn þarf að vera ákveðið „þurr“ til að halda áfram með næsta skref og því mikilvægt að plana daginn vel.

Ég byrja á því að fara yfir það sem þarf að vinna og gera „to do“ lista. Næsta skref er að undirbúa leirinn sem á að vinna með.  Ef ég er til dæmis að fara að renna bolla er mjög mikilvægt að hnoða allt loft úr leirnum því ef það leynist loft í leirnum er hætta á að hlutirnir springi í brennslu.

Eftir að hafa rennt bollana þarfa að láta þá standa í einn til 2 daga til að geta unnið næsta skref.

Á meðan beðið er eftir bollunum nýti ég tímann til dæmis í að gera eyrnalokka, undirbúa fyrir dúddagerð og brainstorma.

 

Þrepin í leirvinnunni eru mörg og litast dagarnir af því hvar maður er í ferlinu. Til dæmis getur ferlið við að búa til einn bolla spannað allt að viku. Þannig að það er mikilvægt að vera vel skipulagður til að tíminn nýtist sem best.

Ég er svo heppin að vera með verkstæðið heima og er oftast mikið líf á verkstæðinu þar sem að börnin mín eru dugleg að koma og „aðstoða“ mig.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Vörurnar mínar eru til sölu í versluninni Jöklu, Laugavegi 90. Einnig er hægt að skoða verkin mín á eftirfarandi síðum.

https://www.facebook.com/aslauggudfinna/

http://aslauggudfinna.blogspot.is/

 

Fyrri greinGóðar viðtökur við FRIDA fatahönnun
Næsta greinJóna kristín er konan að baki JK Design