Hver er listamaðurinn?

Heimir Björgúlfsson heiti ég. Ég er fæddur 1975 í Reykjavík og er uppalinn í Laugarneshverfinu.

Ég flutti til Hollands árið1997, og var í eitt ár að læra Sonology, eða elektróníska tónlist, við Konunglega Tónlistarskólann í Haag, en flutti mig svo til Amsterdam þar sem ég fékk inngöngu í Gerrit Rietveld Listaháskólann og útskrifaðist þaðan árið 2001 með BA gráðu í myndlist. Árið 2003 útskrifast ég svo með Mastersgráðu í myndlist frá Sandberg Stofnuninni, einnig í Amsterdam. Ég hef verið búsettur í Los Angeles í Kaliforníu síðan 2006.

Getur þú lýst verkum þínum?

Öll mín verk byrja út frá hugmyndum um klippimyndir (collage). Í myndlist minni varpa ég fram spurningum á persónulegan hátt um samskipti mannsins og umhverfi hans, mín sjálfs og umhverfi míns. Ég leitast vísvitandi við að nota mismunandi miðla og vinnuaðferðir sem jafnt stangast á og nærast á hvor annari. Ég spila saman ólíkum útkomum í sama efniviðinn svo úr verði heild með einhverskonar fáránleika í góðu jafnvægi, ef svo mætti að orði komast. Ég er ekki að leita lausna, þetta snýst eingöngu um að varpa fram spurningum.

Hvert sækir þú innblástur?

Ég notast við mitt eigið umhverfi fyrir öll mín verk, þar sem ég bý, hef búið, og ferðast. Ég hef áhuga á því hvernig maðurinn beygir náttúruna undir sig, og hvernig náttúran bregst við, hversu langt við göngum í þeim tilgangi og hvernig það lýsir mannlegri hegðun, sérstaklega því sem mætti kallast skrítið við mannlega hegðun. Ég leita eftir því sérkennilega í umhverfinu, því sem er auðvelt að horfa framhjá. Ég geri það alls ekki hlutlaust og hef mjög oft söguleg gildi staða í huga.

Hvernig er að vera listamaður í Los Angeles?

Það á mjög vel við mig, þegar ég kom fyrst hingað árið 2003 líkaði mér borgin ansi vel, svo þegar ég kom aftur í vinnustofudvöl í lengri tíma árið 2005 leið mér strax mjög vel að vinna hérna. Það hefur verið mjög gott fyrir myndlistina mína að vinna í svona margbrotnu samfélagi þar sem allt er af öllu, bæði góðu og vondu. Öfgarnar sem þú sérð hér ofbjóða sumum en ég hef fundið mig geta unnið og lifað vel innan þeirra.

Áttu þér uppáhalds verk?

Nei ég get nú varla sagt það, þetta eru allt börnin mín og mér þykir jafn vænt um þau öll, þótt sum smjúga stundum í örlítið meira uppáhald en önnur.

Hvernig kom það til að þú fórst að mála?

Árið 2005 þegar ég var í vinnustofudvöl hérna í Los Angeles þá hafði ég verið að vinna með teikninga- og ljósmynda-klippimyndir um tíma og ákvað í þeirri þróun að gera tilraunir með að láta prenta út klippimyndir á striga sem ég svo fór að breyta með málningu. Einn vinur minn sem er myndlistarmaður og málari spurði mig þegar hann kom við, afhverju málar þú þetta ekki bara allt? Ég svaraði honum fullkomlega kaldhæðnislega að það væri núna árið 2005, framfarir mannkynsins vildu svo skemmtilega til að tækni væri til svo ég þyrfti ekki að mála klippimyndirnar ef ég vildi þær á striga. En ég fór að spyrja mig í framhaldi af því hvort það væri raunverulega ástæðan, hvort það væri ekki meiri áskorun að mála myndirnar frá grunni, og sérstaklega vegna þess að ég væri alls ekki málari þá gæti það orðið áhugaverðara. Svo fór sem fór og ég er mjög upptekinn af því að mála í dag.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér?

Ég vakna snemma, eftir að hafa komið dóttur minni á fætur, kaffi og morgunmat og þess háttar, tékka ég aðeins á fréttum kannski og fer síðan að vinna út á vinnustofu. Dagurinn líður með smá kaffipásum, hádegismat, og samhliða því sem dóttir mín þarfnast, svo einhverntíma um kvöldið eftir að hafa komið þeirri litlu niður í háttinn þá borða ég kvöldmat með konunni minni og fer annaðhvort aftur út á vinnustofu eða kalla það gott þann daginn og nýt kvöldsins.

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

Ég ætla að fara með það sem ég er að gera eins langt og ég mögulega get. En það veit víst engin ævina alla fyrr en á grafarbakkanum eins og einhver snillingurinn sagði.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Ég er með einkasýninguna „Aldrei aftur eða er of seint að skipta um skoðun?“ til sýnis í Tveim Hröfnum Listhúsi á Baldursgötu 12 í Reykjavík, hún stendur yfir til 9 júní. Þar er hægt að nálgast öll verk eftir mig.

http://www.tveirhrafnar.is

Einnig er hægt að sjá heimasíðu mína http://www.bjorgulfsson.com

Fyrri greinLitríkur og fígúratífur Samúel
Næsta greinBeta Gagga vinnur með mýkt og fegurð kvenlíkamans