500.is

Bylgja Lind listamaður sækir innblástur í náttúru austurlands

Bylgja Lind Pétursdóttir

Hver er listamaðurinn?

Bylgja Lind Pétursdóttir býr og starfar á Egilsstöðum. Hún er sjálfstæður listamaður og hönnuður með gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands.

Getur þú lýst verkum þínum?

Ég hef verið að vinna með frekar íslenskt þema í nokkurn tíma, íslenska náttúru og villt dýr. Hreindýrin hafa einnig verið frekar áberandi í myndunum frá mér. Ég hef verið að teikna aðallega, en nota einnig vatnsliti. Ég sel svo myndirnar mínar sem eftirprentanir í takmörkuðu upplagi sem ég framleiði sjálf. Ég fjárfesti nýlega í glænýjum risaprentara, hér eftir mun ég því prenta myndirnar sjálf í mestu mögulegu gæðum. Ég lagðist í mikla rannsóknavinnu í því ferli og er því alltaf að verða ánægðari með prentin mín.

Svo er ég líka farin að nota hágæða fine art pappír sem að líkist vatnslitapappír og  gefur myndunum líftíma upp á 200+ ár.

Ég er alltaf að þróa mig áfram í þessu og nú síðast ákvað ég að merkja myndirnar mínar með 24 karata gull merki, til þess að gefa þeim svona extra. En svo er planið mitt að halda áfram að mála líka með olíu og fara að mála stór verk.

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Ég myndi segja að Austurlandið hafi verið minn aðal innblástur síðustu ár, náttúran er svo falleg og stórbrotin hér að hún hefur áhrif á mann. En svo er líka svo margt sem að veitir manni innblástur úr öllum áttum, alskonar list, tónlist og bíómyndir.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin þín?

Ég teikna á pappír og nota einnig vatnsliti, svo set ég myndina í tölvuna. Það er mjög mismunandi hvort ég vinn þær eitthvað áfram í tölvunni eða ekki, svo prenta ég í takmörkuðu upplagi. Ég hef líka prufað að búa til púða sem voru unnir úr myndum eftir mig, svo var fyritæki erlendis sem keypti af mér mynd til þess að nota í að framleiða silkislæður, Það var skemmtilegt verkefni. Einnig mála ég með olíulitum og akríl litum.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Ég hef ekki haft eins mikinn tíma og ég myndi vilja til að sinna listinni á vinnustofunni upp á síðkastið þar sem að ég fór í nám, en það klárast vonadi í vor. Planið mitt er því að eyða sumrinu í að teikna og mála. Það er mjög erfitt að lýsa týpískum degi því að þeir eru alltaf svo mismunandi. Ég er með tvær vinnustofur, eina í húsinu mínu þar sem að ég er með herbergi fyrir tölvuna og prentarann minn og þar er aðstaða til að teikna, prenta og pakka sendingum. Svo er ég að vinna í því að útbúa aðstöðu í bílskúrnum, þar sem að ég ætla að fara að mála meira og þá stór olíuverk.

Er hægt að skoða og kaupa verk frá þér?

Já það er hægt að fylgjast með mér á facebook og instagram undir nafninu bylgjaart, þar er hægt að skoða það sem að er enn til og fylgjast með þegar ég kem með nýjar myndir og senda mér skilaboð. Svo hef ég líka verið að selja myndir í HúsHandanna á Egilsstöðum.

Exit mobile version