Hver er listamaðurinn?
Gunnar J. Straumland. Myndlistarmaður, kennari og kvæðamaður, fæddur á Húsavík af þingeyskum og breiðfirskum ættum. Búsettur í sveitinni milli sæva, Hvalfjarðarsveit.
Getur þú lýst verkum þínum?
Í þeim má oft sjá þann ævintýralega veruleika sem við vildum gjarnan sjá í náttúrunni. Hver mynd er ævintýri útaf fyrir sig. Nú orðið mála ég ,,fígúratívar“ myndir af þekkjanlegum fyrirbærum, oft í óvæntum aðstæðum. Andrúmsloft myndanna reyni ég að gera tímalaust.
Hvert sækir þú innblástur?
Í skilin milli raunskynjunar og hugmyndaheims. Þau áhrif sem umhverfi og innsæi hafa eru oft óskýr en geta birst sem óvæntar hugmyndir.
Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?
Ég mála vatnslitamyndir, olíumálverk, akrýlmálverk og teikna. Í byrjun hef ég nokkuð mótaða hugmynd um verkið og legg af stað með hana. Það er stundum eins og að fara í gönguferð þar sem leiðin er nokkuð skýr en svo birtast oft hliðarstígar sem forvitnin rekur mann til að kanna.
Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?
Yfirleitt það verk sem ég er að vinna að hverju sinni.
Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?
Sem betur fer er enginn dagur þar dæmigerður.
Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin?
Á „Írskum dögum“ í Akranesvita 6. júlí, opnum við hjónin sýningu sem verður opin alla daga út júlímánuð.
þar verður hægt að skoða og kaupa. Annars á vinnustofu minni, Hagamel 9, Hvalfjarðarsveit, 301 Akranesi.