500.is

Staða kvenna birtist í verkum Önnu

Anna Sigríður Gunnlaugsdóttir
Anna Gunnlaugsdóttir

Hver er listamaðurinn?

Ég var skírð Anna Sigríður Gunnlaugsdóttir en nota sjaldan Sigríðar nafnið. Ég er fædd í Reykjavík 12. júní 1957, eftir átta mánaða vist í maga móður minnar. Ég var seinþroska að mörgu leiti sem er svo skemmtilegt því ég er ennþá að þroskast.

Ég fór mjög ung í MHÍ (1974-78) og haustið eftir var ég gestanemandi við Ecole  des Beaux-Arts og dvaldi í París þann vetur. Eftir heimkomuna deildi ég vinnustofu á Laugaveginum með fyrrum skólafélögum meðfram 50% vinnu á elliheimili sem var nú ekki svo arðvænlegt svo ég fór aftur í MHÍ og kláraði grafíska hönnun 1983 og vann við það næstu 20 árin eða svo, meðfram myndlistinni. Þegar ég var alveg búin að fá nóg af harkinu í auglýsingarbransanum (þó grafísk hönnun sé í sjálfu sér mjög skemmtilegt fag), tók ég kennslufræði við LHÍ og hef kennt myndlist á kvöldnámskeiðum síðan.

Getur þú lýst verkum þínum?

Já, að því leyti að ég mála eiginlega bara myndir af konum og hef gert í næstum 40 ár. Konan sem viðfangsefni í verkum mínum festist endanlega í sessi eftir að ég eignaðist eldri dóttir mína. Ég varð svo meðvituð um mátt líkama míns, svo upptekin af eigin kynferði að konurnar mínar tóku að fæðast á striganum. Þær tóku sér þar bólfestu og ég elti, fór í ferðalag með ýmiskonar konum, framandlegum sem kunnuglegum. Þegar fram liðu stundir stýrði ég konunum mínum meira en þær mér og ég fór meðvitað að setja þær í ákveðin hlutverk en þessir ferðfélagar segja mína sögu á sinn sjálfstæða hátt.

Á sýningunni sem ég opna 2. nóvember í SÍM salnum geri ég svolítið öðruvísi myndir en ég er vön og er bæði með málverk og dúkristur.

Þannig er að þegar ég var að flytja í vinnustofuna á Korpúlfsstöðum fyrir þremur árum og var enn einusinni að fara í gegnum dótið mitt þá ég fann ég litla mynd (15×15 cm.) þar sem ég hafði  rist í blauta málningu teikningu af konu krjúpandi á fjórum fótum. Ég hafði áður rekist á þessa mynd en nú sló hún mig sérstaklega þarna, þetta var akkúrat staða konunnar og nú er ég að vinna með þessa stöðu og nota hana og leik mér með þetta form í ýmsum útgáfum.

Konurnar á sýningunni, Staða kvenna, eru að segja sögu frá árþúsunda löngu ófrelsi og bælingu frá kynslóð til kynslóðar. Dúkristur sem eru einföld í formi með lifandi línu sem fæst með því að rista í eitthvað en það er ákveðin hliðstæða við fornar hellamyndir og tilvísun í hversu langt aftur kúgunin nær og hins vegar hversu úrelt hugmyndafræði mismunun karls og konu er.

Já og vel á minnst, það eru allir hjartanlega velkomnir á sýninguna, en opnunin verður föstudaginn 2. nóvember kl. 17-19, í SÍM salnum sem er í Hafnarstræti 16.

Hvert sækir þú innblástur?

Að sjálfsögðu að einhverju leyti frá öðru listarfólki, helst þá frá málurum frá 19. og 20. öldinni. Þó að ég sé fígúratískur málari þá er það frá náttúrunni sem ég fæ mestan sköpunarkraft en annars bara frá mannlegum samskiptum og við að fylgjast með fólki og ég elska að ferðast og sjá mismunandi háttalag en kannski líka einmitt hvað við erum öll lík og að ég geti mátað mig í öðrum aðstæðum og þar af leiðandi þekkt sjálfa mig betur. Eins leika sköpunargyðjur við mig þegar ég fer erlendis til að vinna í myndlistinni og núna bauðst mér að fara í vinnustofudvöl allan septembermánuð í Litháen og vann þar flest verkin á sýninguna mína.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin þín?

Aðallega mála ég ég með akrýllitum og nota pallettuhníf en stundum líka pensla og tuskur.
Hér áður fyrr, í skólanum og um þrjú ár eftir það málaði ég með olíulitum og penslum og fylgdi félagslegu raunsæi. Ég vann mjög nákvæmt, notaði mjóa pensla og stúderaði hin minnstu smáatriði. Þetta vinnuferli var mjög seinlegt og ég var mjög lengi að vinna hverja mynd. Þó svona nákvæm skoðun sé mjög lærdómsrík, þá lenti ég eiginlega í öngstræti með þessi vinnubrögð, fannst mig skorta yfirsýn og ná ekki kraftinum í málverkið.

Ég hætti að mála í nokkur ár og þegar ég byrjaði aftur strengdi ég þess heit að nota ekki pensla og í stað olíulitanna byrjaði ég að vinna, fyrst með húsamálningu og svo með akrýlliti. Þá uppgötvaði ég að pallettuhnífurinn væri frábært verkfæri til að forðast smáatriðin og með honum og akrýllitunum náði ég þeim hraða og krafti sem ég vildi ná fram. Pallettuhnífurinn en enn mitt aðal áhald þó að á síðustu árum hafi ég líka notað pensilinn.

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna við myndlist?

Það kom einhvern vegin aldrei neitt annað til greina, ég teiknaði mikið sem barn og unglingur og var orðin mjög fær sem slík þegar ég fór í MHÍ. Þar af leiðandi ætlaði ég mér alltaf í grafík en snérist hugur á síðustu stundu og valdi málun. Það var engin málaradeild lengur við skólann en hún var endurnýjuð fyrir okkur tvær sem kusum málaralist. Ég var svo heppin að það var Hörður Ágústsson, þessi merki myndlista- og fræðimaður sem var yfir þessari tveggja manna deild og gerði það að verkum að eftir það datt mér aldrei annar miðill í hug.

Það var svo merkilegt við Hörð að hann umgengst mig, nemandann, og það sem ég var að gera með svo mikilli alúð og virðingu og svo algjörlega laus við hroka, framkoma sem ég 18 ára stelpan átti nú ekki að venjast af kennurum. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa mátt kynnast og vera undir leiðsögn hjá einum merkilegasta en jafnframt hlýjasta og vinalegasta manni sem ég hef kynnst. Þannig að ég varð og er enn í dag fyrst og fremst listmálari.

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

Já þau eru nokkur, en líklega mest verk sem spratt af svo hreinni og tærri móðurást, upplifun ný orðinnar móður, fyrir 33 árum, að ég get ekki lagt listrænt mat á það og hef aldrei haft á sýningu.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Eftir að ég fór að kenna myndlist á  kvöldnámskeiðum hætti ég að vera sú A manneskja sem ég hafði verið alla æfi og færði sólarhringinn til. Ég er yfirleitt ekki komin á vinnustofuna fyrr en uppúr hádegi. Það verður líka að viðurkennast að ég mæti alls ekki alla daga, ég er ennþá tarnamanneskja, þó ég hafi oft reynt að aga mig að meira normal vinnusiðum en líklega á það ekki eftir að breytast úr þessu.

Þegar ég er loksins komin upp á Korpúlfsstaði líður mér mjög vel þar. Ég kveiki stundum á Rás 1 en oftast hlusta ég bara á Leonard Cohen, Bessy Smith og Billy Holliday, kannski einhæft en þessi tónlist á heima á vinnustofunni minni. Ég vinn hratt þegar ég er komin með hugmynd og oft klára ég heilu sýningarnar á skömmum tíma en sumar myndirnar mála ég mörgum sinnum áður en ég er sátt, eða bara næ því alls ekki.

Ég er farin að eyða meiri tíma í undirbúning og svo tek ég oft ljósmyndir af dagsvinnunni og skoða þegar ég kem heim og prufa breytingar í tölvunni. Í lok vinnudags hreinsa ég stundum alla liti af pallettunni minni á nýjan striga og þá fæðist kannski mynd en reyndar geri ég þetta líka af því mér finnst hvítur striginn ógnvekjandi þegar ég byrja á mynd.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Ég er í frábæru gallerísamfélagi hér á Korpúlfsstöðum en við eru 12 konur sem rekum saman þetta fallega gallerí sem gallerí Korpúlfstaðir er og svo er ég með verk í Artótekinu en þar er hægt að eignast verk með vaxtarlausum mánaðarlegum greiðslum. Ég er ekki enn komin með læk-Facebooksíðu en er með heimasíðu; agunn.vortex.is en er löt við að uppfæra hana.

Exit mobile version