500.is

Myndlistin yfirtók lífið þegar Ingvar Þór hlýddi konunni

Ingvar Þór Gylfason

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Ingvar Þór Gylfason og er 36 ára gamall. Verkfræðingur að mennt en listamaður í lífinu.

Getur þú lýst verkum þínum?

Það má segja að verkin mín séu byggð á sterkri teikningu sem síðan er brotin upp og blönduð inn í litina sem ég nota. Mætti kannski segja að verkin mín séu frekar kraftmikil og stílhrein. Það er að minnsta kosti það sem ég reyni að nálgast í minni sköpun.

Hvert sækir þú innblástur?

Ég sæki innblástur til annarra listamanna og nærveru umhverfisins. Uppáhalds listamennirnir mínir eru bæði íslenskir og erlendir og held ég upp á fjöldann allan af hæfileikafólki. Það sem kveikir samt mest í sköpunareldinum er landið okkar og þegar ég ferðast um Ísland og upplifi kraftinn og fegurðina sem býr út um allt þá kem ég alltaf heim með mikinn eldmóð og mikla innistæðu í hugmyndabankanum.

Hvernig kom það til að þú fórst að mála?

Teikningin er eitthvað sem ég hef stundað frá því ég man eftir mér og lengi vel var það eina listformið sem ég stundaði. Það var síðan á mínum unglingsárum sem ég tók þátt í að mála undirgöng og aðra staði og þá var maður kominn í snertingu við málningu og miklu stærri fleti en A4 blöðin sem höfðu fylgt mér úr æsku.

Það var síðan fyrir rúmlega tveimur árum sem unnustan mín sá mig vatnslita mynd af norn í einhverri útlegunni að hlutirnir fóru að rúlla.

Hún sannfærði mig um að ég ætti að kaupa mér pennsla og málningu, stofna Facebooksíðu og deila myndunum mínum með öðrum. Ég hlýddi henni auðvitað og síðan þá hefur myndlistin tekið yfir líf litlu fjölskyldunnar okkar. Við sjáum hvorugt eftir því og erum ótrúlega sátt með þessa ákvörðun sem við tókum yfir kvöldmatnum hérna um árið.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Þegar ég mála, þá teikna ég alltaf fyrst upp myndirnar á striga eða hvað það er sem ég er að mála á og svo byrja ég bara að mála. Ég mála bæði í akríl og olíu og notast við aðferð sem kallast „Alla prima“ en þá leyfir maður málningunni ekki að þorna á milli umferða og tekur oft myndirnar í einum rikk.

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?

Það eru nokkur verk sem hefur verið mjög erfitt að láta frá sér en í dag finnst mér skemmtilegast að mála nútímadansara og allskonar dýr.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?

Dæmigerður dagur á vinnustofunni byrjar alltaf á því að hlusta á eitt tvö lög eftir strákana í hljómsveitinni Úlfur Úlfur og svo byrjar ballið. Ég er mikill rapp-unnandi og það er það sem kemur mér í stuð á hverjum degi. Oftast mála ég til hádegis og svo eftir mat til svona 16.00. Það kemur svo alveg fyrir að ég stelst til að mála á kvöldin og um helgar en ég er líka með aðstöðu heima fyrir minni myndir og ég reyni að vera í þeim ef ég er í svakalegu stuði heima við.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Ég er með vinnustofu í Hamrahlíð 17 og þar tek ég alltaf glaður á móti gestum þar þegar ég er við en svo er ég með heimasíðu og á samfélagsmiðlunum. Þar auglýsi ég verkin mín auk þess sem þar er hægt að skoða flestar myndirnar sem ég hef málað.

Upplýsingarnar eru:
Sími: +354-6958023
Tölvupóstur: ingvarthor@gmail.com
Heimasíða: www.ingvarthorart.com
Facebook: www.facebook.com/ingvarthorart
Instagram: www.instagram.com/ingvarthor
Pinterest: https://www.pinterest.com/ingvargylfason/

Persónulega finnst mér best að skoða myndirnar mínar á Pinterest en uppsetningin þar er fullkomin fyrir myndir.

Exit mobile version