500.is

Listamaðurinn Harpa Einarsdóttir undirbýr myndlistasýningu

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Harpa Einarsdóttir, fædd 1976 og uppalin í Borgarnesi.

Getur þú lýst verkum þínum?

Verkin mín hafa verið jafn fjölbreytt og lífið getur verið, en maður sér oftast ekki fyrirfram hvað gerist þegar andinn kemur yfir mann. Ég er akkúrat að fara í gegnum breytingaskeið ef svo má kalla, þar sem hið dimma og melankólíska fær að víkja fyrir bjartari og einfaldari verkum.

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Ég hef í gegnum tíðina sótt innblástur fyrst og fremst í dulúð og eigin tilfinningar sem hafa oft verið frekar dramatískar og verkin einskonar útrás fyrir þær. Ég hef ekki framleitt mikið af myndlist undanfarið þar sem þörfin hefur einfaldlega ekki verið til staðar. Núna er ég að undirbúa seríu af málverkum sem munu eflaust koma þeim sem þekkja mig og mín verk á óvart.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Ég hef fyrst og fremst verið að framleiða fatnað undanfarið á vinnustofunni minni Minor Coworking og við sem deilum vinnustofunni vorum að opna hönnunar- og myndlistarverslun á Grandagarði 25 nýverið, MINØR SHOP .

Núna er ég að leita að studío þar sem ég get gert stór olíumálverk, helst út á landi.

Markmiðið er að geta unnið að metnaðarfyllstu myndlistarsýningu sem ég hef gert til þessa.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin þín?

Ég hef mest unnið með blandaða tækni og teikningar og nýt þess að blanda saman ólíkum miðlum.  Á síðustu árum hef ég einnig leikið mér með ljósmyndun og videoverk.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Það er hægt að kaupa hönnunina mína MYRKA í MINØR SHOP og þar fást líka nokkur prent, en verkin mín eru öll löngu uppseld og ég hef bara framleitt pantanir síðustu ár. Þannig að það er með gleði og tilhlökkun að ég mun opna myndlistarsýningu ef allt gengur upp næsta vor.

Heimasíða Hörpu er harpaeinars.com og myrkaiceland.com

Exit mobile version