500.is

Gréta Gísladóttir – Listamaður í rómantísku umhverfi

Gréta Gísladóttir

Gréta Gísladóttir – Listamaður í rómantísku umhverfi.

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Gréta Gísladóttir og er búsett á Flúðum. Gift tónlistarmanninum Karli Hallgrímssyni og eigum við 3 börn. Frá því ég man eftir mér hef ég haft þessa löngun til að skapa og búa til minn eigin heim. Var í Danmörku 1999 – 2000 í Kunst- og håndværkshöjskolen Engelsholm og lærði þar m.a. gler- og myndlist. Eftir 3ja ára nám útskrifaðist ég svo frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2011, fagurlistadeild.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Hann byrjar með góðu kaffi. Svo þarf að svara tölvupóstum og finna viðeigandi tónlist. Oftast vinn ég að nokkrum verkum í einu. Ég gleymi mér gjarnan og ranka við mér þegar heimilisfólkið hringir.

Stundum tek ég pásu frá penslinum og tromma eða dansa.

Þegar ég var yngri málaði ég oft á kvöldin og fram eftir nóttu en í dag hef ég lært að bestu hugmyndirnar og starfsorkan koma þegar ég er nývöknuð. En oft eru vinnudagarnir langir sérstaklega þegar það eru sýningar framundan.

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Fyrst og fremst í þau umhverfi sem ég bý í, náttúruna og fólkið. Ólík form myndlistar eru viðfangsefni mín en málverkið er minn helsti miðill. Ég skoða mest myndlist fyrri tíðar. Má þar nefna listamenn eins og Fridu Kahlo, Egon Schiele, Gustav Klimt, Mary Cassatt og Edgar Degas.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna myndirnar þínar?

Skemmtilegast er að reyna við ólíkan efnivið. Ég nota gjarnan blandaða tækni eða mixed media, þannig skapast tækifæri fyrir tilraunir aðrar en t.d. í hefðbundinni málaralist. Ég nýt þess að skapa andstæður með litavali, formum og birtu. Nota ýmist olíu eða acrýl og mála jafnt á striga sem viðarplötur.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Í gömlu fjósi í Hruna hef ég opna vinnustofu og tek ég á móti gestum eftir samkomulagi. Einnig má sjá verk á fan síðu minni á facebook: gretagisla.is Nýverið kom í gagnið heimasíða með tækifæriskortum frá mér og stærri concept verkum slóðin er www.gretagisla.is

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

Haldandi sýningar víða um heim, fyrst í Danmörku og svo fikra ég mig milli landa. Ég ætla þó að byrja nýja árið á því að halda sýningu í menningarhúsinu Berg, á Dalvík um páskana. Sjálfri mér samkvæm verð ég einlægur rómantískur töffari að gera einmitt það sem hugurinn girnist hverju sinni.

Exit mobile version