Söngkonan og lagahöfundurinn Svala Björgvins er óhrædd við að skapa sinn eiginn fatastíl. Hún er allt í senn frumleg, djörf og stórglæsileg. 500.is lék forvitni á að spjalla við Svölu í von um að fá innsýn í leyndardómana að baki þessarar stórglæsilegu konu.

Hvernig er að búa í Los Angeles?

Það er yndislegt að búa í Los Angeles. Ég flutti hingað fyrst árið 2000 og bjó þá hér í rúmlega 2 ár þar sem ég var á mjög stórum plötusamning við EMI/Priority í Bandaríkjunum í 5 ár. Flutti svo aftur hingað árið 2009 og hef búið hér í næstum því 9 ár. Þessi borg hefur verið partur af mínu lífi í 17 ár. Man þegar ég kom hingað fyrst árið 1999 og bara kolféll fyrir borginni. Hún er svo stór og dreifð og býður upp á svo gríðarlega margt.

Þessi borg býður upp á nánast allt.  Miklir möguleikar en auðvitað gríðarleg samkeppni ef þú ert í kvikmyndabransanum eða tónlistarbransanum.

En það finnst mér bara spennandi og drífur mig áfram sem söngkonu og lagahöfund. Að koma hérna sem túristi er samt ekkert svakalega skemmtilegt nema þú sért í fylgd með fólki sem býr hérna. Borgin er svo stór og mikil og í hverju hverfi er eins og lítil borg með sínum sér kúltúr. Hérna er rosalega mikill gróður og miklir skógar. Ótrúlega mikið villt dýralíf.  Hægt að fara á ströndina allan ársins hring eða í gott hike. Hægt að fara á skíði upp í Big Bear eða út í eyðimörk til að kúpla sig út úr borginni.

Ég elska líka hvað þetta er mikill suðupottur af menningu, trúarbrögðum og mismunandi kúltúr.

Hver er fatastíllinn þinn?

Ég get ekki lýst mínum fatastíl. Fyrir öðrum er hann líklega sérkennilegur og öðruvísi en fyrir mér er hann bara ég. Ég klæði mig bara í föt sem ég fíla að hverju sinni.  Mér er alveg sama þó svo fatnaðurinn sé í tísku eða ekki. Ég er alltaf að þróast í mínum stíl og prófa eitthvað nýtt. Ég klæði mig fyrir sjálfa mig og hef gaman að því.

Ég hef safnað vintage fötum í fjölda mörg ár og á svakalegt safn af vintage fötum. Ég á reyndar alltof mikið af fötum en ég er dugleg að gefa vinkonum mínum flíkur sem ég er hætt að nota.

Ég er alls ekki merkja snobbari þegar það kemur að fötum og skóm og töskum.

Ef ég fíla eitthvað þá er mér alveg sama frá hvaða merki það er og svo framvegis.

Ég er ekki mikið fyrir að droppa 40 þúsund í tösku eða skó.  Er meira fyrir að finna ódýr föt og sniðuga díla þegar það kemur að því að versla.

Hvar færðu innblástur í fatavalið?

Ætli ég fái ekki innblástur bara allstaðar frá. Frá öðru fólki sem ég sé, tískubloggum, gömlum sci fi bíómyndum og tískublöðum. Svo þegar ég versla föt, sem ég geri yfirleitt á netinu, þá gerist bara eitthvað í hausnum á mér og ég set saman allskyns outfit saman í huganum þegar ég sé flíkurnar sem ég hef áhuga á netinu.  Held þetta sé eitthvað innbyggt fataforrit inn í heilanum á mér sem fer af stað þegar ég versla föt og þegar ég klæði mig.

Hver er uppáhalds flíkin þín?

Vá – það breytist í hverri viku. Akkúrat núna þá eru það geðveik semelíusteina stígvél sem ég keypti hérna í LA. Þau eru tryllt.

Hver er uppáhalds netverslun þín?

Þær eru nokkrar. Elska Dollskill.com, Msbhv.com og Namilia.com. Síðan er Asos.com alltaf góð fyrir basic föt. Svo elska ég eBay.com og Etsy.com ég versla þar rosalega mikið. Þar er allt besta vintage dótið.

Hver eru bestu kaupin þín?

Það var klárlega þegar ég keypti vintage designer Zandra Rhodes kjól á eBay fyrir $30 en hann kostar $4000 í einni vintage búð hérna í LA. Þessi breski hönnuður er sjúklega dýr en þessi seller af eBay vissi augljóslega ekki að þessi kjóll væri svona verðmætur. Svo fór ég og lét meta hann og andlitið á mér datt af. Kjóllinn er guðdómlegur.

Hvaða snyrtivörur eru í uppáhaldi hjá þér?

Ég nota mikið Loréal og Maybelline. Svo elska ég Makeup Forever og Nyx. Ég nota bara allskonar snyrtivörur og er alltaf að prófa eitthvað nýtt.

Getur þú gefið 500.is nokkur tískuráð?

Mín tískuráð eru bara að hafa gaman af tísku og klæða sig eins og þér sýnist.

Mér finnst alltaf smartasta fólkið þeir sem eru með sinn persónulega stíl og hafa húmor fyrir tísku.

Þetta eru bara föt og maður á að hafa gaman að þeim og líða vel í þeim.