María Sigríður Jónsdóttir

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti María Sigríður Jónsdóttir og er fædd og uppalin á Akureyri. Ég lærði hárskeraiðn á Akureyri og ákvað eftir útskrift að halda í ferðalag í nokkra mánuði og kynnast Ítalíu. Málin þróuðust þannig að þar er ég enn! Ég á þar mann og 18 ára son og hef vinnustofuna mína þar.  Einnig fór ég í förðunarnám á Ítalíu en fann að löngun í listnám blundaði stöðugt í mér. Ég sótti um inngöngu í Ríkisakademíuna í Flórens og var þar í námi í 4 ár þar sem ég útskrifaðist 1998 og hef unnið sem listmálari síðan. Ég sótti námskeið í mósaík í Flórens og það er listgrein sem mér þykir líka mjög áhugaverð. Ég kem úr stórri fjölskyldu þar sem mikið er af handverks- og listafólki og líklega hefur það haft áhrif á það að ég valdi mér þessa braut.

María Sigríður Jónsdóttir

Getur þú lýst verkum þínum?

Verkin mín eru unnin í olíu á striga og upp á síðkastið ég hef mikið verið að mála blóm og fugla sem mér þykir gaman að setja í svolítið óvenjulegar aðstæður, kannski svolítið súrrealískar, óraunverulegar og draumkenndar. Mér finnst mikilvægt að þau hafi góð áhrif og gleðji áhorfandann.

María Sigríður Jónsdóttir

María Sigríður JónsdóttirMaría Sigríður Jónsdóttir

Hvert sækir þú innblástur?

Innblástur að verkum og hugmyndum geta komið á svo margan og ólíkan hátt og jafnvel síst þegar maður á von á því. Stundum eru það draumar, setningar, ljóð, hugleiðsla, tónlist (sem ég verð alltaf að hafa þegar ég er að vinna,) ferðalög og vissulega náttúran í allri sinni dýrð og kannski skemmtilegt spjall við einhverja góða manneskju!

María Sigríður Jónsdóttir

María Sigríður Jónsdóttir

Hvernig er að vera listamaður á Ítalíu?

Að vera listamaður á Ítalíu er bara oft frekar snúið! Mér finnst oft að listasagan og öll þau stórkostlegu listaverk sem þar eru á hverju götuhorni geri það stundum að verkum að maður spyrji sig hvað það þýði nú að vera að reyna að gera listaverk á eftir þessum snillingum sem uppi voru. Sem betur fer gleymi ég fljótt þessum vangaveltum og sný mér að nútíðinni og held ótrauð áfram og gef minni sköpunarþörf og gleði lausan tauminn. Þeir listamenn á Ítalíu sem ég heyri í eru flestir á sama máli, finnst erfitt að selja listaverk og erfitt að komast inn í gallerý með sín verk.

Ég er heppin og hef selt á Íslandi þar sem fólk virðist vera að kaupa verk eftir þá sem eru að vinna í listinni akkúrat núna, ekki bara eftir látna listamenn!

Mér finnst frábært hversu margir Íslendingar vilja fjárfesta í listaverkum og  prýða heimili sín með nútíma list.

María Sigríður Jónsdóttir

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin þín?

Ég mála flest mín verk með olíulitum á mjög fíngerðan striga og finnst það henta minni málunartækni vel og mér finnst gaman að nota olíuna. Ég mála í þunnum lögum og fer margar umferðir þar sem oft þarf aðeins að bíða eftir að hver umferð þorni aðeins til að geta haldið áfram og þar með er ég frekar lengi með hvert verk. Ég hef unnið í mósaík og það blundar alltaf í mér að gera eitthvað meira í því. Eins hef ég verið að velta fyrir mér að byrja að vinna aðeins í vatnslitum sem er svo ólíkt olíunni en gæti gert það að verkum að eitthvað nýtt og spennandi komi í ljós.

María Sigríður Jónsdóttir

María Sigríður Jónsdóttir

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

Mér finnst það næstum eins og að þurfa að gera upp á milli barnanna sinna að velja eitthvert eitt sérstakt verk… og einhvernveginn er það kannski bara það verk sem er í vinnslu hverju sinni. Maður tengist hverju verki mikið á meðan á vinnslu stendur en svo þarf að halda áfram og skapa nýtt!

María Sigríður Jónsdóttir

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum vinnudegi hjá þér á vinnustofunni?

Vinnustofan mín á Ítalíu er við hliðina á húsinu okkar, innangengt þaðan þannig að ég þarf ekki að fara mörg skref til að mæta til vinnu, sem hefur bæði sína kosti og galla. Ég þarf alltaf minn góða Cappuccino á morgnana og síðan fer ég á vinnustofuna. Ég veit svo sem aldrei hvernig hver dagur verður.

Suma daga gengur mér mjög vel að vinna og er mjög skipulögð og næ að gera mikið, skissa og mála en aðra daga þá er ég kannski óvart farin að hugsa um í miðju verkefni að ég þurfi nú að þrífa eldhúsgólfið og er allt í einu komin í það þegar ég ætti að vera að mála!

Ég bý við torgið í Figline og við hliðina á húsinu og vinnustofunni er kirkjan og á hverjum degi klukkan 12 hringja kirkjuklukkurnar þannig að hádegismaturinn fer aldrei framhjá mér. Ég fylgist svo með lífinu á torginu út um stóru glerhurðina sem er á vinnustofunni minni. Oft gægist fólk inn um gluggann hjá mér til að sjá hvað ég er að sýsla og búa til. Á vorin þegar sólin skín og farið er að hlýna þá finnst mér yndislegt að taka mér smá pásu og setjast út á patíóið mitt og leyfa sólinni að skína á mig í smá stund og fara svo endurnærð aftur til vinnu.

María Sigríður Jónsdóttir

María Sigríður Jónsdóttir

María Sigríður Jónsdóttir

María Sigríður Jónsdóttir

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Ég er með síðu á Facebook Maria-My art, á Instagram ariamaria  og heimasíðu www.mariajonsdottir.com þar sem ég set inn myndir af verkunum mínum og þar er hægt að hafa samband við mig ef fólk hefur áhuga á að skoða og kaupa. Margrét systir mín er leirlistakona með keramikverkstæði á Akureyri og ég fæ vinnuaðstöðu á loftinu hjá henni þegar ég kem heim til Akureyrar og skil verkin eftir þar til sýnis. Það er vissulega heppni að hafa aðgang að vinnustofu hér á Íslandi líka, það auðveldar mér að vera hér lengur þegar ég kem heim og halda góðum tengslum við Ísland og mína yndislegu fjölskyldu.

Fyrri greinLoksins nægur tími til að sinna myndlistinni
Næsta greinTrilltist úr gleði og hamingju á keramiknámskeiði