Þrándur Þórarinsson til stuðnings ljósmæðrum

Hver er listamaðurinn?

Þrándur Þórarinsson heiti ég, fæddist það herrans ár 1978. Útskrifaðist af myndlistarbraut Menntaskólans á Akureyri. Hóf nám við Listaháskóla Íslands, en droppaði úr því námi. Gerðist lærlingur norska kitch-málarans Odd Nerdrum. Þá hef ég lokið við meistaranámi í Heimspeki við HÍ.

Þrándur Þórarinsson
Til stuðnings ljósmæðrum

Getur þú lýst verkum þínum?

Það get ég. Þau eru sígild.

Þrándur Þórarinsson
Stúlkur og stælgæjar á Fríkirkjuvegi

Hvert sækir þú innblástur?

Í garðinum heima hef ég komið upp litlu véi til vegsömunar listagyðjanna (Músanna). Þeim færi ég fórnir á degi hverjum. Sjaldan lifandi fórnir að vísu, og aldrei mannfórnir. Oftast nær færi ég þeim eitthvert kjötmeti, eins og medisterpylsu eða magál, stundum sælgæti og endrum og eins fuglshræ sem ég rekst á á förnum vegi. Þær kæra sig ekki um grænmeti, ávexti eða súpur. Hefur þetta ráð lengi dugað vel og veitt mér drjúgann innblástur.

Í þau fáu skipti sem Músurnar hafa brugðist mér hef ég einatt snúið mér til kölska.

Þrándur Þórarinsson
Lundafár á Laugavegi

Hvernig kom það til að þú fórst að mála?

Ég fékk vitrun á unglingsárum. Sál Marcel Duchamp vitjaði mín í draumi, hún hafði þá tekið sér bólfestu í sjóreknu líki sem lá þar við fótabríkina hjá mér. Marcel sagði mér með hugarflutningi að gerast götusópari. Ég réð þá óðara með mér að gerast frekar málari sígildra verka.

Þrándur Þórarinsson
Nude

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Efnistök gömlu meistaranna hafa verið mitt helsta leiðarljós í vinnunni allt frá því ég var þroskalítill gelgjumaður. Segja mætti að gömlu meistararnir séu mín huldumey og hana (eða þá) má né mun ég aldrei svíkja. Sjálft vinnuferlið hjá mér er nokkuð einfalt. Ég mála fyrst eitt lag og bæti svo öðru við næsta dag og þannig koll af kolli uns verkið er klárt. Olía og terpentína er allt og sumt sem ég sulla með.

Þrándur Þórarinsson
Dalur Einhyrninganna

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?

Mesta eftirlætið hef ég á verkum þeim sem enn eru ómáluð, enda þykir mér einlægt verk mín skána með ári hverju. Ég gæti þó nefnt Grýlu-verkið sem færði mér kærkomna upphefð á netinu hér um árið. En það hef ég sárast dreymt og þráð að öðlast frægð og frama, komast til mannvirðingar og fá orðu og aðrar formlegar viðurkenningar.

Þrándur Þórarinsson
Aryan banki

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

Mér þykir sennilegast að ég verði lagður í grafreitinn á Þingvöllum við hlið Einari Ben og meintum beinum Jónasar Hallgrímssonar, en hver veit, máske verður líki mínu varpað í dý illa útleikið eftir banvæna árás stigamanna á þjóðvegi. Vandi er um slíkt að spá. Annars á ég ekki von á öðru en að líf mitt verði ein samfelld sigurganga.

Þrándur Þórarinsson
Tjörnin

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?

Vinnudagurinn hefst iðulega á því að ég spranga um á vinnustofunni neðanber eins og norðmenn eiga jafnan náttúru til. Þá spangóla ég án afláts í stundarfjórðung, nágrönnum mínum til mikils ama. Því næst ana ég um gólfið skröltandi og skjálfandi eins og vængbrotin mölfluga. Þessi rútína hreinsar hugann og undirbýr mig fyrir hin komandi andlegu átök dagsins, en það er sannarlega ekki með sældinni úttekið að kreista fram sígild verk. Ég skal ekki leyna því að ég svitna talsvert og titra allmikið við iðju mína, froðufelli jafnvel lítilsháttar þegar innblásturinn lýstur niður í mig. Það fer því blóð, sviti og tár í hvert verk. Nema að vísu hef ég ekki ausið út eigin blóði í verk mín enn sem komið er, en það líður væntanlega að því.

Listin er harður húsbóndi og fleira þarf að gera en gaman þykir.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Laugardaginn 6. október opna ég sýningu í Hannesarholti í tilefni af fjörtíu ára afmæli mínu.

Það er sölusýning.

Heimasíða:  www.trandur.com
Instagram:  thrandur_thorarinsson
Facebook:  @ThrandurThorarinsson

Fyrri greinMeð kyrrum huga fer sköpunin af stað
Næsta greinEitt augnablik í samskiptum fólks getur verið uppspretta sköpunar