Hver er listamaðurinn?

Anna G. Torfadóttir fædd í Stykkishólmi en uppalin í Reykjavík. Stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk prófi úr grafíkdeild 1987. Á Akureyri setti hún upp eigið grafíkverkstæði 1988.

Anna hefur tekið þátt í fjölda myndlistasýninga hér á landi og erlendis og hefur sótt ýmis námskeið tengd myndlist. Hún hefur verið gestalistamaður í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Wales, Ítalíu og Ameríku.

Getur þú lýst verkum þínum?

Ég reyni að vinna myndverkin þannig að þær skili til áhorfandans ákveðinni stemningu. Meðfram myndlistinni fæst ég við að hanna þrívíð form, smíða skartgripi úr silfri og kopar. Það er viss hvíld frá myndlistinni; það er mitt jóga.

Hvert sækir þú innblástur?

Gott ímyndunarafl er nauðsynlegur viðtaki fyrir innblástur. Í mörg ár sótti ég tónleika hjá Synfóníuhljómsveit Íslands og fannst það ákaflega gefandi. En eftir að ég flutti í sveitina finnst mér almennt hugarró, útivera, ferðalög, góð tónlist og að rækta garðinn, skipta miklu máli til að hugurinn fari á sköpunarflug.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Ég teikna og nota mínar eigin ljósmyndir sem grunn að mynd, ég blanda oft saman tækni og nota bæði tré- og línolíumdúk, álplötur, járn- og koparplötur sem ég æti með sýru. Ég teikna kannski mynd á tréplötu og sker út með sérstökum hnífum. Valsa lit yfir og þrykki á pappír. Því næst set ég ljósmynd á ljósnæma plötu, valsa öðrum lit yfir og þrykki yfir fyrri myndina, blanda þessum myndum þannig saman. Nota alltaf fleiri en eina plötu og læt litina og formin sameinast.

Er eitthvað verk sem er í sérstöku uppáhaldi?

Já, Herðubreið er í uppáhaldi, því þangað fór ég einu sinni og gisti í skálanum Herðubreiðalindum. Sú ferð var stórkostleg upplifun og ég tók mikið af ljósmyndum og notaði í þessar tvær myndir.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?

Eftir hádegi, að afloknum venjubundnum heimilisstörfum, get ég yfirleitt einbeitt mér að myndlistinni. Í vetur gerði ég mikið af teikningum og blandaði saman við gamlar myndir sem ég fann í læknisfræðibókum, vatnslitaði og prentaði á gömul bókarblöð. Þannig nýtti ég gamlar bækur úr bókasafninu hans pabba sem ég tímdi ekki að henda, fallegar gamlar bækur með gulnuð blöð sem urðu að nýjum verkum.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin?

Ég sel verkin mín í Artótekinu í Borgarbókasafni Reykjavíkur í Tryggvagötu. Ég er félagi í dönsku grafíkfélagi sem er með gallerí, ég sel þar og sýni og svo er vefsíðan komin í loftið www.annagt.com og hægt að panta þar. Annars hringja margir líka heim og koma og skoða á nýju vinnustofunni í Melahverfinu hér í Hvalfjarðarsveit.

Á „Írskum dögum“ í Akranesvita 6. júlí, opnum við hjónin sýningu sem verður opin alla daga út júlímánuð og þar verður hægt að skoða og kaupa.

Meira um sýninguna hér.

Fyrri greinBeta Gagga vinnur með mýkt og fegurð kvenlíkamans
Næsta greinÆvintýralegur veruleiki listamannsins Gunnars Straumland