Jólabækur

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Ýmsar aðrar athyglisverðar bækur komu út á árinu en þær sem núna eru auglýstar sem mest og keppa hvað harðast á jólabókamarkaðnum. Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi og lestrarhestur hinn mesti, hefur lesið sitthvað af spennandi bókum á árinu sem hún mælir með fyrir lesendur 500.is.

Afætur

Jussi Adler-Olsen

Nýjasta bók þessa snjalla danska reyfarahöfundar heitir Selfies og fjallar að venju um sérdeild Q í Kaupmannahöfn sem fæst við fyrnd og óleysanleg glæpamál. Morðinginn að þessu sinni er miðaldra kona, félagsráðgjafi sem hefur fengið nóg af afætum á velferðarkerfinu og tekur til sinna ráða. Fórnarlömb hennar eru ungar konur sem hafa verið lengi á bísanum, þær eru heimskar og frekar; kannski réttdræpar? Bókin er hressilega þýdd hjá Jóni St. Kristjánssyni og prýðileg afþreying í alla staði. Það er óvænt tenging við Konuna í blokkinni eftir Jónínu Leósdóttur (2016), í báðum bókum eru konur teipaðar við klósett.

484 bls
Vaka Helgafell

Camille

Pierre Lemaitre

Lokabindi þríleiks (sem hófst með Irène og var fram haldið með Alex) um Camille Verhœven, lágvaxinn og eitursnjallan lögreglumann í París, í lipurri þýðingu Friðriks Rafnssonar úr frummálinu. Sagan er ekki fyrir viðkvæma, fyrstu 40 blaðsíðurnar lýsa löturhægt hrottalegu ofbeldi sem ástkona lögreglumannsins verður fyrir af einskærri tilviljun, eða hvað? Málin flækjast, ofbeldið eykst og engum er að treysta. Allan tímann er sjónarhornið líka hjá illvirkjanum sem gerir spennuna næstum óbærilega. Sérlega áhugaverð spennusaga.

360 bls
JPV forlag

Mannsævi

Robert Seethaler

Stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Kyrrstætt þorpssamfélag breytist hratt þegar iðnaður og ferðamennska halda innreið sína en einbúinn Andreas Egger tekur öllu sem að höndum ber af miklu æðruleysi. Hann þrælar allt sitt líf, líkamlega bæklaður og kraminn á sálinni af illu atlæti í uppvextinum;  elskar, missir og saknar. Eftirminnilegur karakter í fallegri sögu.
144 bls
Bjartur

 

 

Neonbiblían

John Kennedy Toole

Heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina en síðar varð hann nafnkunnur fyrir skáldsöguna Aulabandalagið (1980). Í Neonbiblíunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Innilega bernskt sjónarhorn afhjúpar breyskleika, fordóma og ofstæki fullorðna fólksins á ljúfsáran og ógleymanlegan hátt.
248 bls
Sæmundur

 

Óratorrek

Eiríkur Örn Norðdahl

Flugbeitt og frábær ljóð „um samfélagsleg málefni“. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

130 bls
Mál og menning

 

Pínulítil kenopsía – Varúð, hér leynast krókódílar

Jóhanna María Einarsdóttir

Áhugaverð og á köflum fyndnar pælingar um póstmódernisma eftir ágengan og óðamála höfund sem reynir á þolrif lesanda með talmálskenndum stíl og neðanmálsgreinum. Lesandi er ávarpaður, hæddur og dreginn á asnaeyrunum út í fúafen kenopsíunnar – sem er ofurtóm og yfirþyrmandi tilfinningaleg síðmynd fjarveru… Ánægjulegt að sjá fræðimenn og rithöfunda glíma svona snöfurlega við skáldskap og samtíma. Skemmtileg útlegging og frábærar myndir úr Codex Seraphinianus.

114 bls
Sæmundur

 

Stofuhiti

Bergur Ebbi Bergsson

Samtíminn krufinn, tíðarandinn speglaður, hugmyndirnar viðraðar, samfélagsmiðlarnir rannsakaðir og sitthvað fleira í eins konar ritgerð eða sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður mannsins í flóknum og hættulegum heimi. Fyndið og beitt, frumlegt, greinandi og skynsamlegt.Hlustið hér:

218 bls
Mál og menning

 

Stormurinn og stillan

Anne-Cathrine Riebnitzsky

Tvær konur, lögmaðurinn Beate og presturinn Monica, kynnast margs konar fólki í í lífi og starfi. Siðferðislegar spurningar vakna, lýsingar á sorg og ást eru nærfærnar og fallegar, andstæður knýja söguna áfram og persónanna bíður ýmist glötun eða hjálpræði enda er hver sinnar gæfu smiður. Vel skrifuð skáldsaga í vandaðri þýðingu Ísaks Harðarsonar. Fyrsta bók þessa höfundar á íslensku er Krakkaskrattar (2015) sem Ísak þýddi einnig. Riebnitzsky  er gestur bókmenntahátíðar 2017.

367 bls
JPV forlag