Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Elísabet Stefánsdóttir, kölluð Beta Gagga, dóttir Gagga og Öldu. Fædd á Sólvangi í Hafnarfirði en ættuð og uppalin á Akureyri. Flutti til Reykjavíkur á 16. ári og hef búið hér síðan. Ég kláraði grunndeild hönnunar frá Iðnskólanum, tók eitt ár í Fornámi MHÍ og  útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2002 frá myndlistabraut með sérmenntun í grafík. Ári síðar útskrifaðist ég með kennsluréttindi frá LHÍ. Ég kenni myndlist við Varmárskóla í Mosfellsbæ ásamt því að reka vinnustofu og gallerí á Korpúlfsstöðum. Ég er einnig starfandi formaður félagsins Íslensk Grafík en við rekum verkstæði og sýningarsal í húsnæði félagsins í Hafnarhúsinu.

Getur þú lýst verkum þínum?

Ég vinn verkin mín í ólíkum miðlum, m.a. málverk á striga, kopar og gler, grafík og ljósmyndun. Viðvangsefnið í verkunum mínum er kvenmannslíkaminn, mjúkar húðfellingar og snerting með dassi af glimmeri. Ég vil sýna fegurðina í mýkt kvenlíkamanns og svo er ég afar upptekin af því hvað við upplifum snertingu á ólíkan máta, það sem að mér þykir í lagi þykir öðrum kannski afar óviðeigandi og eða öfugt.

Hvert sækir þú innblástur?

Verkin eru unnin út frá mínum tilfinningum ásamt upplifun íslenskra kvenna á eigin líkama, fallegar mjúkar fellingar sem myndast við þétt grip eða smá klípu sem er ýmist framkvæmt í ergelsi, reiði eða losta. Ég hef einnig unnið verk mín út frá textum sem ég rekst á í daglega lífinu.

Hvaða aðferð notar þú við að vinna verkin?

Ég fæ vinkonur og vandamenn til að taka þátt í sköpuninni með því að senda þeim tilmæli um gjörning til að framkvæma og ljósmynda og senda mér, sem ég svo mála. Stundum hef ég sjálf ljósmyndað fyrirsætur til að ná ákveðnum sjónarhornum og þar með tekið þátt í gjörningnum líka. Ég vinn verkin með blandaðri tækni, þrykk, akrílmálun og olíupastelkrít. Einnig vinn ég verkin mín í ljósmyndun og hinum ýmsu grafíkaðferðum eins og einþrykk, þurrnál, áferðarþrykk, dúkristu og ætingu.

Er eitthvað verk í sérstöku uppáhaldi?

Nei, en ég heillast mest að verkunum með mesta glimmerið.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi á vinnustofunni?

Á veturna þá stekk ég á vinnustofuna eftir kennslu og vinn í skorpum, oftast um kvöld og helgar.  Best þykir mér að hafa sýningu eða verkefni framundan sem ýtir á eftir mér, en á Korpúlfsstöðum eru einnig opið hús fjórum sinnum á ári og þá reyni ég að vera með ný verk til sýnis í hvert skipti. Á sumrin nýti ég rigningardagana til að vinna á vinnustofunni, ég er mætt fyrir hádegi og vinn fram að kvöldmat og stundum lengur. Grafíkverkin mín vinn ég hinsvegar á verkstæði Íslensk Grafík  í Hafnarhúsinu, ég vinn þar líka í lotum en þar þurfa listamenn að skipta með sér aðstöðunni sem þeir leigja í ákveðinn tíma í senn.

Hvar er hægt að skoða og kaupa verkin þín?

Á vinnustofunni minni á Korpúlfsstöðum, Gallerí Korpúlfsstöðum, www.artotek.is einnig er ég með Facebook síðu; https://www.facebook.com/BetaGagga og heimasíðu í vinnslu: www.betagagga.com

Fyrri greinHeimir Björgúlfsson varpar fram spurningum í listaverkum sínum
Næsta greinHugarró kemur huganum á sköpunarflug